Ágúst Jónsson
Eflum heilsurækt í Kjarnalundi
1987
Verkið var afhjúpað 23. ágúst 1987 en þá voru 50 ár liðin frá stofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Félagið stóð fyrir byggingu Kjarnalundar sem var enn í smíðum sumarið 1987. Akureyrarbær leigði húsið í allmörg ár og rak þar öldrunarheimili en 2004 var það selt. Listamaðurinn, steinasafnarinn og byggingameistarinn, Ágúst Jónsson fæddur 1902 í Skíðadal, gaf verkið en efniviðinn sótti hann vestur á Skaga. Á bakhlið verksins er hlaupari. Ágúst var menntaður húsgagna- og húsasmiður og rak lengi trésmíðaverkstæði bæði í Reykjavík og á Akureyri. Hann var mikill steinasafnari og ánafnaði Háskólanum á Akureyri safn sitt á 95 ára afmælisdegi sínum en Náttúrufræðistofnun í Reykjavík varðveitir nú hluta þessa safns. Árið 1976 var gefin út bókin Óður steinsins en í henni er að finna ljósmyndir Ágústs af íslenskum steinum ásamt ljóðum Kristjáns frá Djúpalæk.