Til baka

Sandgerðisbót og Sílabás

Gengið er frá Sandgerðisbót fram hjá nýrri skólphreinsistöð Norðurorku, upp gamlan vegaslóða í hlíðinni fyrir neðan klettabelti til norðurs í átt að Krossanesi. Leggja má lykkju á leiðina og ganga niður í Sílabás sem er eina ósnortna sandfjaran í þéttbýli innan bæjarmarkanna. Básinn er rammaður inn af tveimur töngum sem ganga fram í sjóinn. 

Þegar komið er upp á hæðina blasir Krossanes við og bærinn Bárufell (auk Jötunfells sem liggur út við Krossanesbrautina). Haldið er upp á klappirnar þaðan sem gott útsýni er yfir Sandgerðisbótina og út fjörðinn. Þaðan er gengið eftir klöppunum í átt að bænum Sæbergi og fram hjá veðurmælingastöðinni sem þar er og þaðan yfir Krossanesbrautina. Krossanesbrautinni er fylgt sem leið liggur til austurs þangað til komið er að göngustígnum sem liggur meðfram Gleránni (á veturna er klöppunum sleppt og frekar gengið beint út að Krossanesbrautinni við bæinn Jötunfell, og göngustígum fylgt alla leið niður að Glerá).

Við Glerána er haldið til norðurs í átt að árósunum þar sem oft er ríkulegt fuglalíf, stígnum fylgt þangað til að komið er alla leið að smábátahöfninni á ný og hringnum lokað.

Kort af leiðinni

Powered by Wikiloc

 

Nánari upplýsingar

Lengd: 2.4 km (hringur)

Tími: 35 min

Undirlag: Malbik/Malarvegur

Upphaf/Endir: Sandgerðisbót

Bílastæði: Sandgerðisbót

Áhugaverðir staðir: Smábátahöfnin og verbúðir, Sílabás, veðurathugunarstöðin við Sæberg, góður útsýnisstaður, Gleráin og árósinn.