Til baka

Afmæli Akureyrarbæjar 2020

Ágætu bæjarbúar og aðrir afmælisgestir.

Akureyrarbær á afmæli þann 29. ágúst næstkomandi. Þetta er 158. afmælisdagurinn og honum ber að fagna. Á tímum Covid skal virða fjarlægðarmörk, samkomutakmarkanir og auglýstar sóttvarnareglur yfirvalda* og því hefur nokkuð óvenjuleg leið verið valin til að gleðja gesti og gangandi í tilefni dagsins.

Hvort sem gengið er eða keyrt um Akureyri að kvöldi dags helgina 28.-30. ágúst má sjá heillandi ljósaverk á nokkrum af tignarlegustu byggingum bæjarins. Akureyrarkirkja, Amtsbókasafnið, Samkomuhúsið og Samkomubrú ásamt strandstíg, veggur á Borgum við HA, menningarhúsið HOF, Ráðhúsið og Lystigarðurinn mynda í sameiningu Ljósin í bænum. Tekið skal fram að hægt verður að ganga um og njóta rómantískrar lýsingar í Lystigarðinum sem opin verður fram eftir nóttu. Gamli skrúðgarðurinn við Minjasafnið verður fallega upplýstur og svo verður einnig um fleiri byggingar, gróður og græn svæði víðs vegar um bæinn. Að lokum finnst fyrir hjartslættinum í formi blikkandi brúar við Drottningarbrautina. Óvenjulegt sjónarspil sem gleðja mun afmælisgesti á sérstöku ári í sögunni. Sjá nánar viðburð á Facebook HÉR

Hvort sem ljósadýrðarinnar er notið í einrúmi eða með nánustu fjölskyldu og/eða vinum er ekki úr vegi að hlýða á hlaðvarp Sagnalistar í ferðinni um bæinn og fræðast um veru setuliðsins í Hlíðarfjalli. Sjá nánar á www.grenndargral.is

Laugardaginn 29. ágúst skartar Listasafnið á Akureyri sínu fegursta með tveimur nýjum sýningum: Annars vegar yfirlitssýningu á verkum Þorvaldar Þorsteinssonar, Lengi skal manninn reyna, og hins vegar sýningu Lilýjar Erlu Adamsdóttur, Skrúðgarður. Listasafnið er opið til kl. 22 á laugardaginn og enginn aðgangseyrir. Sjá nánar á www.listak.is

Í tilefni afmælisins verður einnig boðið upp á bílabíó á athafnasvæði Bílaklúbbs Akureyrar við Hlíðarfjallsveg. Sýndar verða þrjár myndir um helgina, sú bráðfyndna Stella í orlofi, hin einstaka alíslenska teiknimynd Lói – þú flýgur aldrei einn og að lokum myndin sem allir þekkja, Grease. Tekið er fram að bílabíó er eingöngu ætlað gestum í bílum og eru þeir jafnframt beðnir um að halda sig í bílum sínum á meðan sýningu stendur. Bíógestir eru beðnir að virða ákvæði um nálægðarmörk* og taka með sér veitingar sé þeirra óskað. Sjá nánar viðburð á Facebook HÉR

Í dagsljósinu er ekki úr vegi að fá sér göngutúr með fram sjávarsíðunni og nota tækifærið og skoða útisýningu ÁLFkvenna á ljósmyndum sem stendur við Drottningarbrautina á móts við Austurbrú. Sjá nánar viðburð á Facebook HÉR

Á sunnudaginn er svo upplagt að hlýða á Akureyri kallar - beina útsendingu Rásar 2 úr menningarhúsinu Hofi sem haldin er í tilefni af afmæli bæjarins. Þar mun m.a. ungt og upprennandi norðlenskt tónlistarfólk stela senunni.

Njótið vel!

*Skv. núgildandi auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 792/2020 er gildir til 27. ágúst

Dagskrá birt með fyrirvara um breytingar.