Til baka

Gildagur

Gildagur

Gildaginn 6. júní 2020 - Dagskrá

Facebook viðburður Gildagsins HÉR
*Birt með fyrirvara um breytingar

Í tilefni Gildagsins er stærstur hluti Kaupvangsstrætis lokaður fyrir bílaumferð milli kl. 14-17. Hægt verður þó að komast að bílastæðum efst og neðst í Listagilinu. Hægt er að sjá kort af lokun HÉR.

 

Kl. 11-17
Fróði fornbókabúð

Útsala - Ævisögur á hálfvirði
Viðburður á Facebook HÉR

Fróði verður í ævisöguskapi og bíður upp á 50% afslátt af völdum ævisögum í tilefni dagsins. Komdu og grúskaðu í notalegu umhverfi, kaffisopi í boði fyrir gesti.

 

Kl. 11-19
Kaffi & list

Gildagur á Kaffi & list
Facebooksíða HÉR

Í tilefni Gildagsins verður tilboð á pönnukökum allan daginn. Ókeypis safar fyrir börnin á meðan byrgðir endast með keyptu bakkelsi. Gleðistund frá kl. 16 – 18. 

 

Kl. 12-17 - OPNUN
Listasafnið á Akureyri

Sumaropnun Listasafnsins á Akureyri: 5 sýningar / 25 listamenn
Viðburður á Facebook HÉR

Brynja Baldursdóttir – Sjálfsmynd
„Listsköpun mín sprettur upp af viðleitni minni við að myndgera innra landslag mannsins, hið sammannlega og einstaka sem hluta af stærri heild. Verkin á sýningunni eru unnin með þetta í huga. Sjálfsmyndaserían skiptist í lágmyndir og bókverk sem eru hvert um sig þrískipt í þremur litum, svörtum, hvítum og gylltum, sem summa þriggja þátta, líkama, hugar og sálar.“

Heimir Björgúlfsson – Zzyzx
Zzyzx er sýning sem byggð er á sögu og umhverfi Zzyzx-svæðisins í Mojave-eyðimörkinni í Kaliforníu. Hryggjarstykkið er ný ljós- og klippimyndasería, en einnig eru til sýnis önnur verk sem tengjast viðfangsefninu beint eða óbeint.

Jóna Hlíf Halldórsdóttir – Meira en þúsund orð
„Drifkrafturinn á bak við sýningar mínar er tilfinning fyrir viðfangsefnunum hverju sinni og orkan sem tengist þeim. Einstök verk hafa snúist um hvernig raunveruleikinn birtist í myndlist eða hvernig samfélagið bregst við myndlistinni. Textaverk og tilraunir með efni hafa verið undirstaða verkanna undanfarin ár. Texti sem áferð, sem framsetning hugsana, sem hugmyndavaki við mótun samfélags. Í nýlegum verkum hef ég verið að fást við kjarna, tíma og ímynd. Orð eða hugmyndir eru afbyggðar og þeim gefin ný merking í samspili við efnivið verkanna eða samhengi sýningarinnar.“

Samsýning – Hverfandi landslag
Á sýningunni Hverfandi landslag taka íslenskir og finnskir listamenn höndum saman og sýna þæfð verk úr ull. Samvinnan hófst 2017 með sýningunni Northern Landscape í Jämsa, Finnlandi, sem haldin var í tilefni af 100 ára sjálfstæði landsins. Viðfangsefnið er áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga. Landslag hverfur, landslag breytist og landslag tekur á sig nýja mynd. Náttúran hefur þegar breyst og enginn veit hvað bíður komandi kynslóða í þessum efnum.

*Klukkan 15 opnar Ásthildur Sturludóttir sýninguna formlega og finnski sendiherrann, Ann-Sofie Stude, heldur opnunarávarp. 

Snorri Ásmundsson – Franskar á milli
Snorri Ásmundsson hefur stundum verið kallaður „óþekka barnið“ í íslenskri myndlist. Hann vinnur gjarnan með samfélagsleg „tabú“ eins og pólitík og trúarbrögð og hafa gjörningar hans löngum hreyft við samfélaginu. Snorri ögrar félagslegum gildum og skoðar takmörk náungans og sín eigin, en fylgist jafnframt grannt með viðbrögðum áhorfandans. „Stundum er sagt við mig að ég sé „sósíal skúlptúr“. Ég skil fullyrðinguna mætavel því mörg verka minna eru speglun eða framlenging á þankagangi mínum og vangaveltum. Málverkið hefur skipað stóran sess í minni sköpun og fyrsta myndlistarsýningin sem ég hélt 1996 var málverkasýning. Þó ég sé kunnastur fyrir gjörningana mína er það málverkið sem er ódauðlegt og brauðfæðir mig. Það er æðisleg tilfinning að vera besti málari á Íslandi og í hópi fimm bestu málara í heiminum í dag.“

*Sunnudaginn 7. júní verður listamannaspjall við Jónu Hlíf Halldórsdóttur kl. 14 og Önnu Gunnarsdóttur, sýningarstjóra, kl. 15. 

 

Kl. 13-17
Sjoppan vöruhús

Gildagur í Sjoppunni - Júní
Viðburður á Facebook HÉR

Á öðrum Gildegi ársins verður nóg um að vera í Sjoppunni. Helst ber að nefna að valin eintök af Jóni í lit verða á sérstöku Gildagsverði. Einnig verður hægt að gera góð kaup á tækifæristattúum, ilmkertum frá Chase and Wonder, veggspjöldum og fleiri flottum vörum. Jafnframt verður boðið upp á lakkríssmakk frá Johan Bulow og blöðrur, krítar og sápukúlur fyrir börnin. Tekið skal fram að gatan verður lokuð umferð á þessum tíma og því engin hætta á ferð. Viðskiptavinir geta skráð sig í Gildagsleik Sjoppunnar. Dregið verður í lok dags og hljóta tveir heppnir glaðning frá Lakrids by Bulow. 

 

Kl. 14-17
Deiglan - Gilfélagið

Litríkar gellur
Viðburður á Facebook HÉR

Í hópnum eru átta listamenn sem hittast vikulega og mála saman í bílskúr. Hópurinn kynntist í Listfræðslunni á Akureyri og stofnuðu klúbbinn Gellur sem mála í bílskúr í janúar 2016. Markmið hópsins er að hittast og styðja hvert annað í listsköpuninni og hafa gaman. Hópurinn velur sér sameiginlegt þema fyrir hverja sýningu en hver og einn vinnur svo á persónulegan hátt með ólíkri nálgun á viðfangsefnið og útkoman verður skemmtileg blanda. Þema sýningarinnar er er litríkar gellur og á sýningunni verða verk af ýmsum toga unninn í akríl, olíu og í vatnslitum. Í hópnum eru Anna María, Barbara, Björgvin, Harpa, Jóhanna, Jónína, Kristín og Líney.

 

Kl. 14-17 - OPNUN
RÖSK RÝMI

Northern shapes
Viðburður á Facebook HÉR

Sýningin Northern Shapes eða Norðlæg form er sýning á skartgripum Gintarė Narkutė. Gintarė Narkutė er ungur listamaður frá Litháen og hefur búið á Húsavík síðan 2018. Gintarė hannar skartgripi undir nafninu Northern Shapes - Norðlæg form. Gintarė vinnur undir áhrifum frá náttúrunni og  leitast við að tjá fegurð með skýrum formum og naumhyggju.

 

Kl. 14-17 - OPNUN
Mjólkurbúðin salur Myndlistarfélagsins

Himintjöldin endurunnin!
Viðburður á Facebook HÉR

Karl Guðmundsson, Kalli, og Rósa Kristín Júlíusdóttir opna sýninguna Himintjöldin endurunnin í Mjólkurbúðinni á Akureyri. Á sýningunni munu þau sýna listaverk bæði sem einstaklingar og í samspili. Verkin eru textílverk og málverk. Karl og Rósa hafa lengi unnið saman, fyrst sem nemandi og kennari en nú í langan tíma sem samstarfsfólk í listinni. Segja má að verkin þeirra séu myndrænn afrakstur samspils eða samleiks. Fyrir ellefu árum opnuðum við Kalli sýninguna Himintjöld og dansandi línur á Bókasafni Háskólans á Akureyri. Verkið var innsetning úr þunnu grisjuklæði sem við höfðum málað. Hægt var að ganga inn í verkið og líka njóta utanfrá. Nú hafa þessi himintjöld semsagt verið endurunnin í allt annars konar verk!

 

Kl. 14-17
Studio Stóllinn

Opin textíl vinnustofa
Facebooksíða HÉR

Vinnustofan Studio Stóllinn er textílvinnustofa sem er á neðri hæð í Kaupvangsstræti 21. Það eru þær Ragnheiður Björk Þórstóttir veflistakona og Guðbjörg Þóra Stefánsdóttir fatahönunarnemi sem þar vinna. Þær vinna við vefnað, myndvefnað, litun, fatahönnun og efnishönnun hverskonar. 

 

Kl. 15-19 - OPNUN
Kaktus - Ketilhúsið

Umpottun
Viðburður á Facebook HÉR

Prakt og pomp! Kaktusi hefur verið umpottað í reisulegan Ketil og upplifanir í teboði. Árið 2015 var Kaktus stofnaður í kjallara húsnæðis Listasafnsins og hefur síðan þá flutt smá hring í bænum. Nú er hann kominn aftur heim með vinnustofur sínar og sýningarými. Kaktusar eru hópur skapandi einstaklinga sem standa fyrir og stýra viðburðum af ýmsum toga í Kaktus og annars staðar. Í þetta sinn bjóðum við gangandi og gestum í Ketilinn að upplifa stemmarann og sýningu.

 


*Ef þú ert með viðburð í nálægð við Listagilið þessar dagsetningar getur þú sent inn þátttökubeiðni á netfangið almar@almar.is. Athugið að þátttökubeiðni verður að berast tíu dögum fyrir Gildaginn.  

 

Hvenær
laugardagur, júní 6
Klukkan
11:00-19:00
Hvar
Kaupvangsstræti, Akureyri
Nánari upplýsingar