Til baka

Goðafoss

Goðafoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðadal. Hann er 12 metra hár og 30 metra breiður. Goðafoss er meðal stærstu fossa landsins og er jafnframt talinn einn sá fallegasti. Goðafoss er vinsæll ferðamannastaður allt árið um kring og er alls ekki síðri á veturna í klakaböndum.

Goðafoss á merkilegan sess í Íslandssögunni en Þorgeir Ljósvetningagoði kastaði hinum heiðnu goðum í fossinn eftir að hafa ákveðið að Íslendingar skyldu taka upp kristindóm og hafna heiðnum siðum, svona opinberlega að minnsta kosti.

Goðafoss er einungis spölkorn frá þjóðvegi 1, vel merktur og ætti varla að fara fram hjá nokkrum sem þarna á leið um. 
Hægt er að leggja beggja vegna við fossinn, þar eru bílastæði og góðir stígar og aðgengi allt árið. Styst er að ganga að fossinum vestan megin við ánna.
Athugið að á veturna getur færð spillst og góð regla er að skoða aðstæður fyrirfram með því að kynna sér heimasíðu Vegagerðarinnar og Veður.is

Verslun, veitingar og snyrtingar eru í Goðafosskaffi - Fosshóli. 
Afgreiðslutími (vetur 2022) Virka daga: 9.00-18.00, laugardaga 10.00-18.00 og sunnudaga 12.00-18.00

Fyrir þá sem vilja gera hring úr heimsókninni og ná hluta af Norðurstrandarleiðinni og heimsækja Laufás í leiðinni geta ekið eftirfarandi leið:
Akureyri - Goðafoss - Dalsmynni - Laufás - Akureyri, sem er um 100 km hringur og um 1.5 klst í akstri.
Athugið að vegurinn um Dalsmynni er malarvegur.

Auk þess er hægt að bæta við heimsókn til Grenivíkur eða renna inn í Vaglaskóg.

Hægt er að skoða Laufás að utan allt árið en bærinn er yfirleitt opinn:
Sumar: 1. júní - 30. ágúst - Daglega kl. 11-17 / Vetur: 1. september - 1. október - Daglega kl. 13-17 - sjá nánar neðst á heimasíðu Minjasafnsins á Akureyri

Síðan er alltaf hægt að gera stutta útgáfu af ferðinni, aka í gegnum Vaðlaheiðargöngin aðra leiðina og um Víkurskarð hina leiðina.

Nánari upplýsingar


Leiðarlýsing:

Google maps 

Staðsetning:
N65° 40' 58.154" W17° 32' 58.487"

Vegnúmer: 1

Vegalengd frá Akureyri:
35 km

Hlekkir:
Laufás

Grenivík