Til baka

Leiðin til Akureyrar

Allar samgöngur við bæinn eru greiðar, hvort sem er í lofti eða á láði. Hægt að velja um flug, rútur, strætó, ferjur, einkabíla, bílaleigubíla og leigubíla. Auk þess má nefna innanbæjar strætó á Akureyri sem er gjaldfrjáls. Einnig má hér finna upplýsingar um samgöngur til og frá Hrísey og Grímsey.

Flug: Air Iceland Connect heldur uppi reglulegu áætlunarflugi á milli Akureyrar og Reykjavíkur eða allt að 5 ferðir á dag. Flugið tekur 45 mínútur. Norlandair býður upp á áætlunarflug til Grímseyjar daglega í júní en að öðrum kosti þrisvar sinnum á viku, auk áætlunarflugs til Vopnafjarðar,  Þórshafnar og Nerlerit Inaat á Grænlandi.

Sigling: Ferjurnar Sæfari og Sævar halda uppi áætlunarferðum til og frá Grímsey og Hrísey. 

Akstur: 
Vegalengdin milli Akureyrar og Reykjavíkur er um 390 km, þeir sem kjósa að aka á milli ættu að reikna með um 5 klukkustundum til fararinnar ef farið er á eigin vegum en með áætlunarferð tekur ferðin um 6 klukkustundir.  Vegalengdin milli Egilsstaða og Akureyrar er um 270 og tekur um 3.5 klst.

Strætó
 býður upp á áætlunarferðir milli Akureyrar og Reykjavikur tvisvar sinnum á dag nema einu sinni á laugardögum (leið 57). Þá sér Strætó einnig um áætlunarferðir innan Eyjafjarðarsvæðisins milli Akureyrar, Dalvíkur, Ólafsfjarðar og Siglufjarðar (leið 78), auk annarra þéttbýliskjarna eins og Húsavík (leið 79) og víðar. Ekið er einu sinni á dag milli Egilsstaða og Akureyrar á dag (leið 56) - í hvora átt, nema á laugardögum þegar enginn akstur er í boði.

Áætlunarferðir Strætó til Akureyrar frá Reykjavík eru farnar frá Mjóddinni í Breiðholti (einnig Ártúni og Háholt í Mosfellsbæ) og frá Akureyri til Reykjavíkur er lagt af stað fyrir utan menningarhúsið Hof á Akureyri (Strandgötu 12 - stoppustöðin er merkt). Sjá má allar áætlanir á heimasíðu strætó.is eða fá upplýsingar í síma 540 2700.   
Hægt er að skoða gjaldskrá og kaupa farmiða á heimasíðu strætó, í strætisvagninum, sjá einnig fleiri sölustaði á heimasíðu Strætó.  

Áætlun strætó um Norðurland og milli Reykjavíkur og Akureyrar
Vetur:  1. október 2020 - 15. maí 2021
Sumar: 14. juní- 15. ágúst.2020
Haust: 1. - 30. september 2020

Á Akureyri og nágrenni eru mörg fyrirtæki sem bjóða upp á hópferðir í ökutækjum af öllum stærðum og gerðum, allt frá jeppum og upp í 74 sæta hópferðabíla. Eitt stærsta hópferðabílafyrirtæki landsins er með höfuðstöðvar á Akureyri og hefur áralanga reynslu í að sinna stórum hópum m.a. við móttöku skemmtiferðaskipa upp að 3.000 farþegum.