Til baka

Fuglaskoðun

Fuglaskoðunarsvæðin og bæklingurinn

Margir góðir staðir eru til fuglaskoðunar á Akureyri og í næsta nágrenni bæjarins. Þessir staðir eru alls 11 í dag og er hægt að fræðast um þá alla í fuglaskoðunarbæklingi sem gefinn var út árið 2017, bæði á íslensku og ensku.  Í bæklingnum má finna lýsingu á náttúru, fuglalífi og hvernig finna má viðkomandi svæði m.a. með lýsingu og korti, þar sem sjá má vegi, stíga og aðra innviði. 
Bæklinginn má skoða rafrænt hér 


Frekari upplýsingar

Hér fyrir neðan má finna frekari upplýsingar um svæðin sem eru í landi Akureyrarbæjar en þau eru alls fimm. Á fjórum þessara svæða er búið að koma fyrir fuglaskoðunarhúsum. Þessi svæði eru Naustaborgir, Krossanesborgir, óshólmar Eyjafjarðarár og í Hrísey. Í fuglaskoðunarhúsunum er góð aðstaða fyrir fuglaskoðendur og yfirlitsmyndir með fuglategundum sem finna má á viðkomandi stað. Á meðfylgjandi korti má sjá staðsetningu fuglaskoðunarhúsanna og hvernig er best að komast að þeim, á Akureyri og Hrísey.

Krossanesborgir:
Áhugaverðasta svæðið eru Krossanesborgir sem er rúmlega 1 km2 stórt, en þar má finna 27 tegundir fugla sem verpa á svæðinu (skv. talningu 2003) eða um 500 til 600 mismunandi pör. Meðal tegunda má telja: kríu, hettumáf, silfurmáf, sílamáf og stormmáf, jaðrakan, ýmsar endur og gæsir s.s. grafönd og grágæs auk margvíslegra vað- og mófugla. Á meðfylgjandi yfirlitsmynd má sjá helstu fuglategundir svæðisins. Þar er fuglaskoðunarhús.
Um svæðið liggja stígar og slóðar, sem lagðir hafa verið til að auðvelda gestum að njóta svæðisins og búið er að setja upp fjölda upplýsingaskilta sem segja frá lífríki svæðisins.
* Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.
* Frétt á Akureyri.is um fuglalíf í Krossanesborgum og skýrsla frá 2013.

Óshólmar Eyjafjarðarár:
Óshólmar Eyjafjarðarár er stærsta óshólmasvæði landsins, þar eru taldar verpa allt að 33 tegundir fugla eða rúmlega 40% af varpfuglafánu Íslands. Hettumáfur og æðarfugl eru algengustu fuglarnir á svæðinu, en í kjölfarið fylgja kría, grágæs, hrossagaukur, spói, rauðhöfðaönd o.s.frv. Fjórar tegundir á svæðinu, grágæs, skeiðönd, grafönd og stormmáfur, eru á válista Náttúrufræðistofnunar. 
Hér má skoða yfirlitsmynd af fuglategundum við Óshólmana. 
Skýrsla um talningar á fuglalífi í óshólmum Eyjafjarðarár: Könnun 2010 með samanburði við fyrri ár

Naustaborgir: 
Naustaborgir kallast klettaborgir nokkrar, háar og áberandi, milli tjaldsvæðisins að Hömrum og Golfvallarins að Jaðri. Aðalborgirnar eru tvær, Ytri- og Syðri-Borg (Borgir) og er sú hærri um 130 m h.y.s.. Vestan við Naustaborgir er breiður og flatur flói og í honum dálítil tjörn, sem Hundatjörn nefnist. Fulgaskoðunarhús er staðsett við tjörnina. 
Hér má skoða yfirlitsmynd af fuglategundum við Naustaborgir. 
Einnig yfirlitsmynd af fuglaskoðunarhúsum á Akureyri.

Hrísey:
Í eynni er mjög góð aðstaða til fuglaskoðunar og þar er einnig fuglaskoðunarhús.
Hrísey er þekktust fyrir þéttasta varp rjúpna á Íslandi og mjög stórt kríuvarp. Þar eru allir helstu vaðfuglar og mófuglar landsins, varp anda og sjófugla er töluvert. Hér má skoða yfirlitsmynd af fuglategundum í Hrísey og yfirlitsmynd af fuglaskoðunarhúsi í Hrísey.

Grímsey:
Grímsey er besti staðurinn hér um slóðir til að skoða bjargfugla; fýl, lunda, ritu, stuttnefju, langvíu og álku. Þar er einnig eitt stærsta kríuvarp landsins.