Til baka

Snjótroðaraferðir

Kaldbaksferðir
Réttarholt
601 Akureyri
Sími: 867 3770
Netfang: info@kaldbaksferdir.com
Heimasíða: kaldbaksferdir.com

Kaldbaksferðir bjóða upp á ferð í lengstu skíðabrekku landsins, farið er upp á Kaldbak sem er 1174 metrar á hæð og býður upp á ótrúlegt útsýni í góðu veðri. Farið er upp á fjallið með snjótroðara. Síðan er hægt að fara niður á skíðum, bretti, gangandi eða aftur með snjótroðaranum. Fastar ferðir eru upp á Kaldbak á tímabilinu frá 1. janúar fram á vor. Farnar eru 3 ferðir á dag, kl. 10, kl. 13 og kl. 16. Lágmaksfjöldi í ferð eru 10 fullorðnir.

Ferðin upp á Kaldbak tekur um 45 mínútur. Uppi á toppnum er stoppað í um 15 mínútur og gefst þá góður tími til að njóta útsýnisins. Bílstjórar eru ólatir við að fræða farþega um það sem fyrir augun ber. Einnig er góður siður að skrifa nafn sitt í gestabókina.
Bíllinn fer sömu leið niður og geta farþegarnir valið annað hvort að fara með honum aftur eða renna sér niður brekkurnar á skíðum, sleðum eða snjóþotum. Hægt er að fá lánaða snjóþotu ef ævintýraþráin tekur völdin.

Stór þáttur í starfsemi Kaldbaksferða eru stakar ferðir samkvæmt óskum viðskiptavina. Vinsælt er að fara með starfsmannahópa í útsýnis og skemmtiferðir. Margir nota tækifærið og taka skíðin með, enda eru brekkur við allra hæfi. Einnig hefur brettafólk séð spennandi tækifæri í að nýta sér þjónustu Kaldbaksferða. Þessar ferðir þarf að skipuleggja í tíma þar sem oft er fullbókað í fastar ferðir með bílunum.

Kaldbaksferðir eiga tvo snjótroðara sem eru útbúnir með opnu farþegarými. Annar bíllinn tekur 20 farþega og hinn 32. Nauðsynlegt er að panta fyrirfram í ferðir í síma 867-3770. Lagt er af stað frá aðstöðuplani rétt norðan við þorpið Grenivík. Til hagræðingar er æskilegt að greiðsla fari fram með peningum en einnig er hægt að greiða með kortum.

Bílarnir sem notaðir eru til ferðanna upp á Kaldbak eru með opnu farþegarými. Nauðsynlegt er að klæða sig í samræmi við það.


Mælt er með að eftirfarandi útbúnaður sé meðferðis:
Góður og hlýr útivistarfatnaður
Vatnsheldir skór
Hanskar
Myndavél