Til baka

Látraströnd

Látraströnd er strandlengjan austan við utanverðan Eyjafjörð og nær frá Grenivík í suðri og norður á Gjögurtá. Hjólaleiðin byrjar á Grenivík og liggur eftir malar- og moldarvegslóða sem liggur til norðurs með ströndinni að tóftunum við bæinn Grímsnes, um 15 km norðan við Grenivík.

Hjóla þarf í gegnum nokkra læki og ár og getur þurft að vaða einhverjar þeirra sökum þess hver stórgrýttur /grófur botninn er.

Um svæðið segir á Wikipedia:
Ströndin dregur nafn sitt af bænum Látrum, sem fór í eyði 1942 og voru yst á ströndinni. Önnur eyðibýli á Látraströnd, talin suður frá Látrum: Grímsnes, Sker, Miðhús, Steindyr, Jaðar, Svínárnes, Hringsdalur og Hjalli. Syðsti bærinn er í byggð: Finnastaðir, rétt norðan Grenivíkur. Yfir ströndinni gnæfa fjöllin Kaldbakur, Skersgnípa og Einbúi.

Á Látraströnd er lítið undirlendi og hvergi nema mjó ræma. Þar er snjóþungt og snjóa leysir seint á vorin. Vetrarbeit var því lítil vegna snjóþyngsla þótt þarna sé gott sauðland á sumrin og heyskapur var erfiður svo að bændur á ströndinni reiddu sig mjög á sjósókn.
Snjóflóðahætta er víða á ströndinni og meðal annars eyddust tveir bæir þar í snjóflóði 1772. Bæirnir
 á utanverðri ströndinni fóru allir í eyði fyrir miðja 20. öld og þar eru hvergi hús uppistandandi en tóftir og rústir sjást víða og skáli ferðafélagsins Fjörðungs er á Látrum. Vegarslóði liggur frá Grenivík út ströndina að Grímsnesi, um 7 kílómetrum fyrir sunnan Látra.

Látraströnd tilheyrir Grýtubakkahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu.

Nánari upplýsingar


Lengd:
15 km (önnur leiðin), 30 km (fram og tilbaka)

Erfiðleikastig: Miðlungs

Undirlag: Malar- og moldarvegur og fara yfir ár/læki

Hækkun: 160 m

Upphaf & endir: Bílastæði við Útgerðarminjasafnið á Grenivík

Árstíð: Jeppavegur og engin þjónusta