Til baka

Vaðlaheiðin

Skemmtileg leið upp gamla Vaðlaheiðarveginn sem býður upp á flott útsýni bæði inn og út fjörðinn. Farin er fram og tilbaka sama leiðin og er heildar km talan 35 km upp á heiðina og aftur tilbaka að Hofi.
Hjólað er á malbiki í upphafi en síðan á frekar grófhefluðum malarvegi.

Leiðin hefst við Hof, síðan áfram til suðurs eftir Strandstígnum, þaðan sem beygt er til austurs (vinstri) við Leirunestið yfir á Leiruveginn (þjóðveg 1 í átt að Egilsstöðum). Eftir brúnna er beygt til hægri inn á Eyjafjarðarbraut eystri (nr 829), henni fylgt að afleggjaranum að Veigastaðaveg 828, þar sem beygt er til vinstri og síðan eftir stuttan spöl, aftur til vinstri áfram veg 828. Þeim vegi fylgt en skipt á yfir á Vaðlaheiðarveg þegar þeir mætast og áfram sem leið liggur alla leið upp á Vaðlaheiðina.

Hægt er að bæta við þessa leið allt eftir þreki og þoli þess sem hjólar. Hægt er að halda áfram yfir heiðina og niður í Fnjóskadal. Hjóla eftir heiðinni eftir vegslóða sem þar er inn að skólavörðu eða fara til norðurs fyrir aftan möstrin og halda niður heiðina í gegnum Hrossadal og áfram niður í Víkurskarðið og þjóðveginn aftur til Akureyra.

 

Nánari upplýsingar


Lengd:
35 km (fram og tilbaka)

Hækkun: 536 m

Erfiðleikastig: Meðal

Undirlag: Malbik/Malarvegur

Upphaf/Endir: Menningarhúsið Hof

Bílastæði: Menningarhúsið Hof