Til baka

Glerárhringur - neðri

Fjölbreytt og skemmtileg hringleið eftir malbikuðum stígum, malarslóðum og troðningum. Alls er farið yfir 4 mismunandi brýr á þessari leið, þaraf 2 göngu/-hjólabrýr.

Ferðin hefst við Glerártorg þaðan sem farið er meðfram Glerárgötu og yfir Gleránna. Strax og komið er yfir brúnna er haldið til vinstri upp með ánni.  Stígnum er fylgt þangað til að komið er upp fyrir gljúfrið og Glerárvirkjunina (þá eldri), þá er beygt til vinstri og farið yfir rauðu brúnna fyrir ofan stífluna. Þegar yfir brúnna er komið er farið í gegnum undirgöngin og strax til vinstri og aftur til vinstri upp með Borgarbrautinni og yfir Gleránna (í þriðja sinn). Þá er farið inn á stíg til vinstri sem liggur í gegnum skógarreitinn fyrir ofan ánna. Þeim stíg er fylgt þangað til að komið er að hringtorgi við veginn upp í Hlíðarfjall. Farið yfir bæði Hlíðarbrautina og Hlíðarfjallsveginn og farið niður slóðann sem liggur niður að ánni fyrir ofan brúnna að nýju virkjuninni til móts við steypustöðina.

Fylgið stígnum sem liggur sem næst ánni, og haldið beint áfram í gegnum reiðleiðina sem þverar stíginn. Malarstígurinn sem fylgt er liggur að mestu meðfram ánni og má víða sjá niður í stórfenglegt gljúfrið og fallega fossa. Leiðin liggur fram hjá akstursvæði bíla- og mótorhjólafélaganna (sem eru á hægri hönd). Eftir mótorcross svæðið tekur leiðin á sig sveig upp fyrir skotæfingasvæðið. Þar fyrir ofan er komið á malarveg sem fylgt er yfir ristarhlið og í áttina að Hlíðarfjalli. Gætið þó að fylgja ekki veginum áfram upp að Hlíðarfjalli heldur er sveigt inn á eina veginn sem liggur áfram inn Glerárdalinn.

Þegar sést í hjólapallanna sem tilheyra brunbrautinni sem kemur niður úr Hlíðarfjalli (á hægri hönd) þarf að fylgjast vel með merkingu því stutt þar fyrir sunnan (ca 10-15 metra) kemur slóði sem fylgja á niður að ánni (er uþb til móts við bílastæðið fyrir gönguleiðina upp á Súlur sem sjá má hinu megin við ánna). Þar er haldið niður. Athugið að mögulega borgar sig að teyma hjólið þar niður því leiðin er mjög brött og kröpp á köflum.

Þegar niður að ánni er komið liggur slóðinn niður með ánni og að göngubrú þar sem er farið yfir og slóða fylgt áfram upp hæðina og að bílastæðinu við Súlur. Þaðan er veginum síðan fylgt alveg niður að Mjólkursamsölunni á Akureyri. Farið að og yfir Þingvallarstræti og hjólað í átt að miðbænum eða niður að göngubrautinni að Hrísalundi, þá er beygt inn á göngustígnn til vinstri og honum fylgt í átt að háskólanum á Akureyri. Hjólað er framhjá hjólabrettavellinum, háskólanum, Íslandsklukkunni og þar fyrir neðan er beygt til hægri og farið yfir Norðurslóð, við undirgöngin þar sem við komum í gegn við upphaf leiðarinnar, þar er beygt til hægri og haldið niður með Borgarbrautinni alveg niður að Glerártorgi þar sem hringnum er lokið.

 

Powered by Wikiloc

 

Nánari upplýsingar


Lengd:
14,5 km (hringur)

Erfiðleika stig:
Miðlungs/krefjandi

Hækkun:
350 m

Upphaf & Endir:
Glerártorg