Til baka

Gömlu brýrnar

Þetta er tiltölulega létt leið með nánast enga hækkun. Byrjað er við Hofi og hjólað eftir Strandstígnum meðfram Drottningarbrautinni suður fyrir flugvöllinn, þaðan sem beygt er til austurs (vinstri) meðfram flugvallargirðingunni yfir á gamla þjóðveginn yfir gömlu brýrnar og að Eyjafjarðarbraut eystri, austanmegin í dalnum/firðinum.

Brýrnar þrjár yfir Eyjafjarðará voru byggðar árið 1923 sem partur af gamla Norðurlandsveginum en voru aflagðar árið 1986. Á þessari leið er hjólað yfir tvær þeirra auk þess sem ný brú hefur bæst við í stað þeirra þriðju vegna stækkunar á öryggissvæði flugvallarins.
Þessi hluti leiðarinnar er ekki lengur opinn fyrir bíla, en hún er vinsæl meðal útivistarunnenda enda liggur hún við óshólma Eyjafjarðarár þar sem mikið fuglalíf er á sumrin, fallegt um að litast við árbakkana og mikið útsýni bæði inn og út fjörðinn/dalinn.

Þegar komið er yfir á Eyjafjarðarbraut eystri 829, liggur leiðin til norðurs að Leiruveginum (þjóðveg 1). Þar er haldið til vinstri og hjólað yfir Leirubrúnna til Akureyrar og endað við Hof. Leiðin er að hluta á malbikuð og að hluta á grófu malarundirlagi.

Vinsamlegast athugið að leiðin yfir brýrnar er hluti af reiðleiðarkerfi bæjarins, vegfarendur eru því beðnir að sýna tillit til þess. Mælt er með að stoppa hjólin og bíða þess að hestar fari framhjá áður en haldið er áfram þar sem margir hestar hræðast reiðhjól.

Einnig er hægt að stytta leiðina og leggja við bílastæðið fyrir sunnan flugvöllinn við Eyjafjarðarbraut vestri (821) og hjóla einungis malarleiðina yfir gömlu brýrnar sjá meðfylgjandi kort
The Old Bridge Crossing on Trailforks.com

 

Nánari upplýsingar

Lengd: 13 km

Erfiðleika stig: Létt (miðlungs)

Hækkun: 9 m

Undirlag: Malbik & Malarvegur

Upphaf & Endir: Menningarhúsið Hof

Bílastæði: Menningarhúsið Hof / Flugvöllurinn