Til baka

Aðalstræti 38

Fjaran var hverfi verkafólks og iðnaðarmanna, húsagerðin dró dám af fyrstu dönsku húsunum er risu í bænum ­– og efnahag eigendanna ­– þau voru einföld, lítil og lágreist, með bröttu þaki. Vatn var sótt í brunna, útikamrar voru við hvert hús, kartöflugarðar í brekkunni fyrir ofan og litlir árabátar í fjörunni fyrir framan. Víða voru útihús fyrir skepnur, eina eða tvær kýr og nokkrar rolluskjátur.

Hin lágreistu timburhús, austan Aðalstrætis, eru mörg hver byggð um og upp úr 1850. Elsta hús Fjörunnar reis 1827, uppi í brekkunni fyrir ofan þar sem nú er Aðalstræti 36 (Geirshús, byggt 1877). Í Geirshúsi bjó eitt sinn Árni Jónsson wæni, einn harðasta fiskimaður bæjarins. Hann giftist aldrei en var í tygjum við Maríu, dóttur Geirs Vigfússonar sem húsið dregur nafn af. Eitt sinn voru þau búin að ákveða stóra daginn og kaupa hringana. En þar sem presturinn beið brúðhjónanna bárust þær fregnir að selur væri kominn inn á Pollinn – eða síld.  Og þá þurfti Árni á sjóinn, presturinn hélt áfram að bíða og aldrei varð neitt af brúðkaupinu.

Í Aðalstræti 38, sem þá var torfbær, bjó Ari Sæmundsen og var því bærinn kallaður Arabía. Ari reisti húsið þar næst sunnan við, Aðalstræti 40, en það var kallað Bibliotekið því að Ari hýsti og sá um Amtsbókasafnið.

Í Aðalstræti 42 bjó Sigríður Jónsdóttir og sonur hennar Ármann Sveinsson, Manni, síðasta vetur Manna á Íslandi. Vinkona Sigríðar, Elín Einarsdóttir, bjó í Aðalstræti 44, Elínarbauk, og seldi áfengi á helgum dögum templurum til sárrar gremju en fyrsta góðtemplarareglan var stofnuð í húsinu næst sunnan við, kannski fyrir einhver áhrif frá Elínu og áfengissölu hennar.

Í Aðalstræti 50 bjó Matthías Jochumsson, skáld og prestur, þegar hann orti sitt einasta níðkvæði sem þurfti þá endilega að taka öllum öðrum níðkvæðum fram. Yrkisefnið var Ísland og erindin ellefu alls:

Volaða land,
horsælu hérvistar slóðir,
húsgangsins trúfasta móðir,
volaða land!