Til baka

Aldeyjarfoss

Aldeyjarfoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðardal. Fossinn er með einstaka stuðlabergsumgjörð. 

Fossinn myndar Skjálfandafljót sem er jökulfljót sem á upptök sín í Vonarskarði sem er á milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls og rennur óbeislað um 180 km leið til sjávar í Skjálfanda, eitt fjórða lengsta fljót Íslands. Fljótið rennur um norðanvert hálendi Íslands um mikil víðerni og á leið sinn blandast það drag- og lindám, það myndar marga tilkomumikla fossa á leið sinni til sjávar, svo sem Goðafoss, Hrafnabjargafoss og Aldeyjarfoss. 

"Fossaröðin er ofan efstu bæja innarlega í Bárðardal þar sem Bárðardalshraun rennur fram af hálendisbrúninni ofan í dalinn. Hraunið myndaðist í miklu flæðigosi fyrir um 9.000 árum en það er hluti af Ódáðahrauni sem er í raun samansafn margra hraunbreiða sem ýmist falla til norðurs (Útbruni) eða suðurs (Frambruni). Skjálfandafljót hefur fundið sér leið yfir hraunið og rofið það niður þannig að áin fellur nú í röð fossa.

Aldeyjarfoss er rúmlega 20 m hár og fellur fram af Bárðardalshrauni um þröngt haft ofan í skeifulaga hyl. Hraunið er fagurstuðlað neðan við fossinn og má sjá bæði lóðrétt stuðlaberg og stuðlarósir. Ingvararfoss er rétt ofan við Aldeyjarfoss og er nokkru lægri. Hrafnabjargafoss er um 5 km ofan við Aldeyjarfoss. Hann er um 5 m hár en fremur breiður þar sem áin fellur fram af hrauninu í aðskildum, misstórum lænum og rennur stór hluti vatnsins undir hraunbrú í ánni vestanverðri.

Auðnir, ávalir, jökulsorfnir hálsar og eldbrunnin hraun eru einkennandi í landslagi svo innarlega í Bárðardal en fossarnir eru í 300–400 m hæð y.s. Sprengisandsleið liggur um hálsa vestan fljótsins og eru fossarnir vinsæll viðkomustaður ferðamanna." (af síðu Náttúrufræðistofnun Íslands)

Frá þjóðvegi 1 er beygt inn Bárðardalinn, inn eftir vegi 842 eða 844, rétt áður en komið er að innsta bæ að vestan er haldið inn á fjallveg F26 og síðan beygt af honum til hægri eftir tæpa 4 km, vegslóða sem liggur að bílastæðinu vestan Skjálfandafljóts. Frá bílastæðinu liggur stígur niður dálítið bratta brekku að hraunbreiðunni sem umlykur fossinn.

Við bílastæðið eru salerni.

Síðasti hluti vegarins er fjallvegur (F26) sem lokast í snjóum (engin vetrarþjónusta), hægt er að ganga frá þjóðveginum (nr. 842) sem er um 8 km leið (fram og til baka). Gætið að því að loka hliðinu við gatnamótin.

Best er að skoða á vef Vegagerðarinnar hvernig færð er upp Bárðardalinn og svo er gott að skoða veðurspá dagsins fyrir svæðið

 

.

Nánari upplýsingar

Leiðarlýsing á: Google maps

Staðsetning: Hnit: 65.364291, -17.341099 (65° 21.857'N, 17° 20.466'W)
ISN93: 577.178, 541.626

Vegnúmer: 1 & nr 842 eða nr 844 & F26

Vegalengd frá Akureyri: 75 km