Til baka

Jólakötturinn á Ráðhústorgi

Margt er á huldu um hvaðan íslenski jólakötturinn er kominn en honum svipar að mörgu leyti til erlendra dýravætta sem birtast í nágrannalöndum okkar á aðventunni. Hinn norræni jólahafur er ef til vill sú erlenda dýravættur sem íslenski jólakötturinn okkar líkist mest en dýrin eiga það sameiginlegt að fylgjast vel með fólki í undirbúningi jólanna og gera þeim sem ekki fá nýja flík á jólunum grikk. Af þessu er orðatiltækið „að fara í jólaköttinn“ dregið, þ.e. að jólakötturinn éti þá sem ekki fá ný föt á jólunum. Þó hefur reyndar líka komið fram mildari skýring á orðalaginu en hún er sú að jólakötturinn éti matinn frá þeim sem ekki fá nýja spjör um jólin.

Jólakötturinn á Ráðhústorginu var fyrst afhjúpaður 28. nóvember 2009 en listaverkið smíðaði ungt fólk úr Fjölsmiðjunni undir leiðsögn Aðalheiðar Eysteinsdóttur og er hann í anda annarra tréskúlptúra hennar.

Kötturinn læðir sér malandi inn á Ráðhústorgið laugardaginn fyrir fyrsta í aðventu og fer ekki fyrir en á þrettándanum þann 6. janúar.