Til baka

Ein með öllu (bláa leiðin)

Gengið um helstu sögustaði og segla bæjarins.

Gangan hefst á Ráðhústorgi og gengið þaðan til suðurs í gegnum miðbæinn. Staldrað er við Kaupvangstorg þar sem sést til Akureyrarkirkju, upp Listagilið /Kaupvangsstræti. Þaðan er haldið áfram í átt að innbænum. Á þeirri leið sést til Sigurhæða þar sem þjóðskáldið Matthías Jochumsson bjó, staldrað við Samkomuhúsið og söguskiltið sem þar er, þarna má stytta gönguna og ganga upp menntastíginn ef ekki er tími fyrir langa göngu.

Við Höepfner bygginguna sem áður var með veglegri verslunarhúsum bæjarins er áð við söguskiltiskilti sem sýnir helstu staði á gömlu Akureyri. Hægt er að gæða sér á ís í Brynju áður en gengið er framhjá Laxdalshúsi og fleiri merkum húsum eins og Gamla Spítalanum, Friðbjarnarhúsi og Nonnahúsi.
Við Minjafnið/Minjasafnskirkjuna/Nonnahús er haldið á brattann - upp Nonnastíginn sem liggur upp brekkuna norðan við Minjasafnið og upp á hæðina. Þar er gengið inn í kirkjugarðinn og gegnum hann til norðurs.  Staldrað er við útsýnisstaðinn við kapelluna og hægt að hvíla sig á bekk áður en áfram er haldið.
Við upplýsingaskiltið um Nonna liggur stígur áfram niður af hæðinni og endar í Lækjargilinu. Við höldum niður gilið og síðan til vinstri upp Spítalaveginn þangað til komið er að Lystigarðinum. Þar er gengið um garðinn áður en við yfirgefum garðinn við Menntaskólann og göngum að Kaþólsku kirkjunni og styttunni af Útlaganum.  Áfram niður Eyrarlandsveginn að Akureyrarkirkju og niður kirkjutröppurnar og erum þá aftur komin að Kaupvangsstræti og ljúkum hringnum í miðbænum. 

Nánari upplýsingar
 

Lengd: 5,4 km (hringur)

Tími: 2 -3 klst

Gönguhækkun: 120 m

Undirlag: Malbik, moldarslóði, gras

Upphaf/Endir: Ráðhústorg

Bílastæði: Miðbærinn

Áhugaverðir staðir: Innbærinn, Sigurhæðir, Samkomuhúsið, Söguvörður, Laxdalshús, Gamli Spítalinn, Friðbjarnarhús (Leikfangasýningin), Minjasafnið, Nonnahús, Minjasafnskirkjan, Kirkjugarður Akureyrar, Nonnastígur, Lystigarðurinn, Útlaginn, Kaþólska kirkjan, Akureyrarkirkja, Listagil.