Til baka

Gömlu brýrnar yfir Leiruna (Hjartabrautin)

Göngu- og hjólaleið sem liggur um ósa Eyjarfjarðarár og um gamla þjóðleið.

Upphafs- og endarpunktar eru við menningarhúsið Hof en hægt er að stytta leiðina og fara t.d. bara hina svokölluðu "Hjartabraut" en þá er lagt við suðurenda flugvallarsvæðisins við veg 821 og gengið eftir malarslóða yfir brýrnar, leið fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi.

Ef allur hringurinn er tekinn þá liggur leiðin eftir Strandstígnum yfir Leirurnar meðfram þjóðvegi 1, inn Eyjarfjarðarbraut eystri nr. 829, þaðan er beygt inn á gamla malarveginn undir gróskumikilli hlíð þar sem m.a. má finna fallegar tjarnir og lítinn foss, þaðan inn á moldartroðning meðfram girðingu og síðan inn á gamla þjóðveginn sem liggur um tvær af gömlu brúnum og yfir eina nýja sem byggja þurfti þegar flugvallarsvæðið var stækkað og ekki var lengur hægt að fara um þriðju gömlu brúna. 

Á þessari leið er hægt að taka smá krók að fuglaskoðunarhúsi sem liggur niðri við ósinn. Ganga þarf vel gróinn slóða strax eftir miðbrúna að vestan, sjá skilti við upphaf leiðarinnar og fylgja slóðanum meðfram ánni niður að ósnum.

Þegar komið er aftur upp á gömlu leiðina er haldið áfram yfir nýju brúnna við flugvallarsvæðið. Veginum fylgt sem liggur meðfram flugvallargirðingunni og við suð-vestur enda flugvallarsvæðisins er beygt inn á göngu- og hjólastíg sem liggur meðfram Eyjarfjarðarbraut vestri (nr. 821)  í átt að Akureyri. Á þessari leið er gengið framhjá Flugsafni Íslands og flugstöðinni,  meðfram Strandstígnum/Drottningarbrautinni og komið aftur að byrjunarreit við Hof.

Á Wikiloc og Google Earth

Nánari upplýsingar

Lengd: 16 km (hringur)

Tími: 3-4 klst

Undirlag: Malbik, möl og moldarstígur (mýri á krókaleiðinni)

Upphaf/Endir: Menningarhúsið Hof

Bílastæði: Menningarhúsið Hof

Áhugaverðir staðir: Útsýnisstaðir við Strandstíginn / Drottningarbrautina og Leiruna, gamlir þjóðvegir og brýr, fuglaskoðunarhúsið, Eyjarfjarðará og óshólmarnir, Flugsafn Íslands.