Til baka

Steinmenn

Steinmenn eru sérstæðir steinstólpar á jökulsorfnum klöppum við Súlumýrar ofan við Kjarnaskóg. Hægt er að velja um nokkrar leiðir en sú algengasta er að ganga upp að Gamla (gamall skátaskáli) sem er fyrir ofan Kjarnaskóg og þaðan upp stikaða kindagötu upp móa og hlíðar um 1.2 km í viðbót.  

Gangan hentar flestum en er nokkuð brött. Börn og unglingar hafa eflaust gaman að því að spreyta sig og sjá þessa skemmtilegu steinkarla sem standa við Súlumýrar í um 500 m hæð og horfa yfir bæinn. Frá Steinmönnum er mikið og fallegt útsýni í allar áttir.

Hægt er að byrja gönguna frá tjaldsvæðinu á Hömrum eða Kjarnaskógi, á báðum stöðum eru næg bílastæði og snyrtingar.
Einnig er hægt að ganga frá Fálkafelli en þaðan er leiðin óstikuð, enginn slóði og fara þarf um mýri, en sú leið er ekki eins brött.

Vegalengd fram og til baka er um 7 – 9 km allt eftir því hvaða leið er valin. Gönguhækkun er um 450 m. Leiðin er greiðfær, að mestu þurr og eingöngu nokkrir lækir sem stika þarf yfir. Gangan ætti að taka um 4-4.5 klukkustundir í heildina.

Nauðsynlegt er að vera í góðum skóm og klæða sig eftir veðri. Hafa með vatn og hressingu, eins er gott er að hafa meðferðis göngustafi.

 

Nánari upplýsingar

Lengd: 7-9 Km (fram og tilbaka)

Tími: 4-4.5 klst

Undirlag: Moldargötur, melar og klappir

Upphaf/Endir: Bílastæðið Kjarnaskógi v/Kjarnakot

Bílastæði: Bílastæðið Kjarnaskógi v/Kjarnakot

Áhugaverðir staðir: Kjarnaskógur, klettabeltin fyrir ofan Kjarnaskóg, Gamli (skátaskálinn), Súlumýrar og Steinmenn, mikið og gott útsýni.