Til baka

Glerárdalur upp að stíflu

Gönguleið sem liggur frá brúnni við Hlíðarfjallsveg við nýja stöðvarhús Fallorku við ána, upp eftir svokölluðum Fallorkustíg upp að uppistöðulóninu fyrir Glerárstíflu og aftur niður eftir stígnum sem liggur inn að Lamba.

Bílastæði er við nýja stöðvarhúsið fyrir ofan brúna. Gengið/hjólað er til suðurs eftir malar og moldar stíg sem liggur nálægt eða meðfram gilinu. Á leiðinn er farið fram hjá akstursíþróttasvæði Bílaklúbbs Akureyrar (BA) og Akstursíþróttafélags vélsleða- og vélhjólamanna (KKA). Tveir útsýnisstaðir eru merktir á leiðinni sem liggja að gilinu og veita stórfenglegt útsýni á hrikalegt gljúfrið og fallega fossa. Eftir svæði KKA er tekinn sveigur utan um svæði Skotfélags Akureyrar (SA) sem er vel afmarkað með girðingu. 

Þegar komið er fyrir ofan skotsvæðið liggur leiðin inn á vegslóða, yfir ristarhlið og tekinn smá sveigur upp hlíðina áður en farið er til vinstri (suðurs) inn á vegslóða sem liggur inn dalinn og alveg inn að nýju Glerárdals stíflunni. 
(Hægt er að stytta gönguleiðina hér, stuttu eftir að komið er inn á þennan veg er skilti sem vísar á "Brú á Glerá" þar er hægt að fara moldarslóða niður í gilið, yfir göngubrú og áfram slóðann upp að bílastæðinu fyrir Súlur bílastæðið og fylgja síðan Súluvegi niður að byrjunarreit).

Við stífluna er gengið yfir stífluvegginn og áfram upp brattan stíg upp á austurhlíð gilsins þar sem við tekur stígur sem liggur annarsvegar áfram inn dalinn að Lamba, fjallaskála Ferðafélags Akureyrar (ath panta þarf og greiða fyrirfram fyrir aðgengi að skálanum hjá félaginu).
Hinsvegar liggur leiðin niður með ánni í átt að Akureyri með viðkomu við bílastæðið fyrir gönguleiðina upp á Súlur. Frá bílastæðinu er Súluvegi fylgt alveg niður að Mjólkursamsölunni (mælt er með að taka smá útúrdúr inn á bílastæði MS og skoða listaverkið Auðhumlu), þaðan er síðan haldið áfram yfir á göngustíg og yfir Þingvallarstræti við leikskólann Flúðir. Þar er haldið til vinstri yfir brúna og á hringtorginu er farinn nánast hringurinn áður en stígurinn niður að stöðvarhúsinu er tekinn og hringnum lokið.

Hægt að breyta aðeins af leið með því að fara yfir gilið á þremur stöðum áður og klára hringinn með því að endurtaka Fallorkustíginn að hluta. Í boði eru fjórar brýr fyrir utan stíflubrúna - ein til móts við bílastæðið við Súluveg (sjá myndir á korti), ný reiðbrú til móts við Vegagerðina, gamla reiðbrúin til móts við hesthúsahverfið og síðan Glerárbrúin fyrir neðan steypustöðina.



Yfirlitsmynd á Google Earth   og kort á Wikiloc

 

Nánari upplýsingar
 

Lengd: 14 km (hringur)

Tími: 4-6 klst

Undirlag: Malar-/moldarstígur og malarvegur

Upphaf/Endir: Stöðvarhús við Glerá

Bílastæði: Stöðvarhús við Glerá

Áhugaverðir staðir: Útsýnisstaðir við Glerá, gljúfrið, dalurinn og stórfenglegt útsýni