Jólatorgið verður opnað í annað sinn á Ráðhústorgi laugardaginn 29. nóvember og stefnt er að því að hafa það opið frá kl. 15-18 allar helgar fram að jólum.
Laugardaginn 29. nóvember kl. 16 verður Jólatréð á Ráðhústorgi tendrað við hátíðlega dagskrá sem auglýst verður bráðlega.
Nú er búið að opna fyrir umsóknir um pláss í söluhúsnum. Sótt er um í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar og er umsóknarfrestur til og með 14. október 2025.
Akureyrarbær leitar að fjölbreyttum hópi söluaðila á Jólatorgið 2025, sem starfrækt verður á Ráðhústorgi um helgar frá 29. nóvember - 23. desember, með fyrirvara um breytingu á dagsetningum. Óskað er eftir umsóknum frá einstaklingum, samtökum og fyrirtækjum sem hafa til sölu vandaðar vörur og varning
með skýra tengingu við jólahefðir landsmanna. Sérstök áhersla er lögð á að á Jólatorginu sér ríkulegt úrval af gæðavörum, litið til matar, drykkja og upplifunar. Það á að vera ómissandi hefð að koma á torgið og smakka og lykta af jólunum. Fjölbreytni í vöruúrvali verður því lykilatriði við val á söluaðilum.
Jólatorgið verður opið á laugardögum og sunnudögum frá kl. 15-18.
Tímabil Jólatorgsins:
Fyrsta helgin: 29.-30. nóvember (kveikt er á jólatrénu við hátíðlega athöfn kl. 16 á laugardeginum 29. nóvember).
Önnur helgin: 6.-7. desember.
Þriðja helgin: 13.-14. desember.
Fjórða helgin: 20.-21. desember.
Möguleiki er að opið verði á Þorláksmessu en það kemur í ljós þegar eftirspurn og framboð hafa skýrst.
Á torginu verða skreytt söluhús sem öll eru 190cm x 250cm að stærð. Loftljós, innstungur og rafmagnsofn ásamt sölulúgu eru í öllum húsum. Söluaðilar koma sjálfir með stóla, borð, posa, og annað slíkt.
Leiguverð fyrir eitt hús er 20.000 kr. fyrir eina helgi. Hægt er að sækja um söluhús fyrir eina eða fleiri helgar, ekki fyrir staka daga. Heimilt er að tveir söluaðilar deili húsi. Leigugjaldið miðast við húsið, óháð fjölda aðila.
Innifalið í leigugjaldi er allur kostnaður við uppsetningu, rekstur húss og þrif á svæðinu. Að auki mun Akureyrarbær sjá um að laða að gesti og kynna jólatorgið á Akureyri með ýmsum hætti, til að mynda með skemmtidagskrá sem eykur aðdráttarafl Jólatorgsins. Vakin er sérstök athygli á að söluaðilar þurfa að uppfylla þau lög og reglur sem gilda um sölu og meðhöndlun vara.
Hér má sjá mynd af húsunum sem umræðir (athugið að húsin verða síðan skreytt).
Nánari upplýsingar um Jólatorgið veitir Elísabet Ögn verkefnastjóri menningarmála hjá Akureyrarbæ í netfanginu elisabetogn@akureyri.is