Til baka

Minjasafnið á Akureyri

Aðalstræti 58
IS-600 Akureyri
Sími: 462 4162 / Fax: 461 2562
Netfang: minjasafnid@minjasafnid.is
Heimasíða: minjasafnid.is

Starfsemi Minjasafnsins á Akureyri er afar fjölbreytt og stendur safnið fyrir fjölmörgum viðburðum auk sýningarhalds. Markmið Minjasafnsins er að safna, varðveita og rannsaka menningarsögulegar minjar, einkum þær sem eru lýsandi fyrir daglegt líf og atvinnuvegi í Eyjafirði. Í sýningum safnsins er leitast við að gefa góða innsýn í sögu og menningu héraðsins.

Minjasafnið er annað og meira en sýningarsalur og starfsemin því fjölbreyttari en virðist við fyrstu sýn. Bersýnilegar eru sýningar og  viðburðir. Starfsemin grundvallast hins vegar á að safna, varðveita, rannsaka og fræða. 

Minjasafnskirkjan
Stærsti gripur Minjasafnsins er svartbikuð timburkirkja sem stendur norðan við Minjasafnsgarðinn og var upphaflega á Svalbarði austanmegin Eyjafjarðar. Hana byggði kirkjusmiðurinn Þorsteinn Daníelsson frá Skipalóni árið 1846 og er hún gott dæmi um íslenskar sveitakirkjur sem reistar voru á Íslandi um miðbik nítjándu aldar. Hægt að leigja Minjasafnskirkjuna fyrir athafnir eða tónleika.

Minjasafnsgarðurinn er ein af perlum Minjasafnsins og safngripur í sjálfu sér. Garðurinn er einn örfárra varðveittra íslenskra skrúðgarða frá aldamótunum 1900.

Opnunartími safnsins
Afgreiðslutími: Opið frá 11-17 alla daga frá 1. júní til 1. október. Frá 2. október til 31. maí er opið daglega frá 13-16. Opnað er fyrir hópa á utan þess tíma. Einnig er hægt að skoða safnið á virkum dögum á opnunartíma skrifstofunnar frá kl. 8-16 samkvæmt  samkomulagi (sími: 462 4162). 

Aðgengi
Fjarlægð frá miðbæ: Gangandi 20 mín. Strætisvagnaferðir: Leið 5 og 6.  

Laufás

Gamli bærinn í Laufási er opinn frá 11-17 alla daga frá 2. júní til 15. september. Frá 16. september er hann opinn eftir samkomulagi. Hægt er að leigja Gamla prestshúsið í Laufási fyrir fundi og veislur. Nánari upplýsingar í síma: 895 3172. 

Sögugöngur
Minjasafnið á Akureyri býður upp á gönguferðir með leiðsögn um Akureyri fyrir hópa ef óskað er. Í gönguferðum safnsins gefst tækifæri til að fræðast um sögu Akureyrar á einstakan hátt. Gengið er um elstu hverfi bæjarins, staldrað við merkileg hús og er göngufólk frætt um sögu húsanna og íbúa fyrr á tíð. Minjasafnið hóf skipulagðar sögugöngur fyrir nokkrum árum og hefur þátttaka í þeim farið vaxandi með hverju árinu. Bæjarbúar hafa verið mjög duglegir að mæta í auglýstar göngur en undanfarin misseri hefur færst í vöxt að slíkar göngur séu pantaðar af hópum sem leggja leið sína til Akureyrar. Slíkar göngur hafa verið vinsælar sem hluti af dagskrá árshátíða eða ráðstefna. Boðið er upp á nokkrar sögugöngur til dæmis Innbæjargöngu um gömlu Akureyri (á íslensku). Sögugöngur fyrir hópa þarf að panta með um það bil tveggja vikna fyrirvara verð fer eftir fjölda þátttakanda.

Viðburðir
Minjasafnið stendur fyrir fjölmörgum viðburðum. Draugaslóð safnsins á Akureyrarvöku, sem haldin er í lok ágúst, hefur öðlast fastan sess í huga bæjarbúa og er ákaflega vel sótt. Söngvökur, nokkurs konar ferðalag um sönghefð Íslendinga í tónum í Minjasafnskirkjunni, er hægt að panta allan ársins hring. Söngvaka kostar 45.000. Viðburðir eru auglýstir sérstaklega.

Hér eru upplýsingar um aðgangseyri, dagskort og árskort.