Til baka

Gudmanns Minde - Gamli spítali

Gudmanns Minde eða Gamli spítali var reistur árið 1835 af Baldvini Hinrikssyni Scagfjord járnsmið. Árið eftir varð húsið læknisbústaður héraðslæknanna Eggerts Johnsens og síðar Jóns Finsens. Í húsinu var jafnframt apótek í upphafi og var það í einu herbergi í norðausturhorni neðri hæðar. Árið 1872 keypti Friðrik Gudmann kaupmaður húsið, byggði norðan við það einlyfta viðbyggingu, innréttaði það sem spítala og færði bænum að gjöf. Þetta var fyrsti spítalinn á Akureyri og var húsið upp frá því kennt við minningu hans og nefnt Gudmanns Minde. Spítalinn var á efri hæðinni en á þeirri neðri bjó spítalahaldarinn sem var ráðinn til að reka spítalann og sjá um sjúklinga.

Árið 1899 var tekinn í notkun nýr spítali á Akureyri. Þá var húsið selt og þjónaði það sem íbúðarhús í tæp 100 ár. Árið 1994 keyptu Akureyrarbær og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri húsið og afhentu það Læknafélagi Akureyrar og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem hafa staðið fyrir viðgerðum á því undanfarin 15 ár í samráði við Minjasafnið á Akureyri og Húsafriðunarnefnd ríkisins. Í húsinu er nú rekin starfsemi Aflsins, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi.

 

Gudmanns Minde - Gamli spítali
Aðalstræti 14 
600 Akureyri