Til baka

Kímniskáldið Káinn

Kristján Níels Jónsson Július (1859–1936), háðsdeiluskáld, fæddist á Akureyri. Hann flutti til Norður-Ameríku árið 1878 og dvaldi fyrstu árin í Kanada. Hann var þekktur sem K.N./Káinn (borið fram „Kó-enn“), vann sem vinnumaður á sveitabæjum mesta hluta ævi sinnar og kvæntist aldrei. Margar grafirnar í Thingvalla kirkjugarði í Norður-Dakóta gróf hann sjálfur.

K.N. Július var einstakt og ástsælt skáld og gamanleikari. Drykkjusöngvar og ljóð hans kunna að hafa átt þátt í orðspori hans sem mikils drykkjumanns. Heildarsafn, Kvæðlingar og Kvæði (Ditties and Poems), kom út árið 1945 í ritstjórn Richards Beck. Upprunalega bókin, Kvæðlingar, kom út árið 1920.

Hann orti mörg minningarljóð og átti alltaf ljóð til reiðu við hvert tækifæri. Fyrir utan leikandi og háðslegan tón í ljóðum sínum, lýsti hann einnig hlýju og visku, þar sem hann blandaði saman ensku og íslensku.

Árið 1940 var reistur minnivarði honum til heiðurs við Thingvallakirkju í Eyford í Norður-Dakóta, sem síðan var endurbyggður árið 1999. 
Á dánardegi Káinns 25. október 2018 var vígt minnismerki um hann í Innbænum á Akureyri, skammt sunnan Minjasafnsins á Akureyri og stutt frá þeim stað þar sem hann fæddist í Aðalstræti en hann fæddist 7. apríl 1859, á sömu lóð og húsið Aðalstræti 74 stendur í dag.  Minnismerki þetta var gjöf „Icelandic Roots, The Icelandic Communities Association of NE North-Dakota“ og annarra velunnarar Káins vestan hafs. Minnismerkið er stuðlabergsstapi sem á er afsteypa af lágmynd sem er á minnismerkinu um skáldið í Norður-Dakota.

 Hér á eftir fer lýsing á K.N. úr gamalli blaðagrein:

„Hann gekk til verks eins og hann væri að búa til rúm fyrir þreyttan vin,“ sagði náinn vinur hans, Dr. Régnvaldur Pétursson, „og flestir þeir sem þar hvíla voru persónulegir vinir skáldsins.

Hér hvílir hann nú sjálfur á grasivöxnum bletti, með litla steinhellu við höfuð sér, og við hlið kirkjunnar stendur virðulegur minnisvarði með líkneski hans. Hann var reistur af vinum hans og aðdáendum í Bandaríkjunum og Kanada, en hannaður af nágrönnum hans, sem með þakklæti minnast skáldsins sem með blíðu gamansemi lét byrðar þeirra léttari og baráttuna bærilegri í hálfa öld, færði sólarljós inn á heimili þeirra og var sísprudlandi lind skemmtunar og ómældrar, frumlegrar hnyttni.

Þó hann væri fátækur að efnislegum gæðum, auðgaði K.N. þessar byggðir og hafði áhrif á menningarumhverfi þeirra eins og enginn annar maður hafði gert."

Byggt á texta frá icelandicroots.com.

Til Akureyrar orti Káinn um jólaleytið 1932:

Mér er eins og öðrum fleiri
ættjörð týnd og gleymd,
samt er gamla Akureyri
enn í huga geymd.

Frekari upplýsingar um Káinn má m.a. finna á meðfylgjandi hlekkjum:
Icelandic Connection
Wikipedia
Akureyri.net