Til baka

Útilistaverk

Útilistaverk á Akureyri eru mörg og er hægt að fara í skemmtilega göngu um bæinn og skoða og fræðast um verkin.

Hér má skoða bæklinginn

Ragnar Kjartansson (1923-1988)
Auðhumla og mjaltastúlkan
Við Mjólkursamsöluna ehf, Súluvegi 1
1986 
Þessa höggmynd vann Ragnar Kjartansson á árunum 1980-84. Hún var afhjúpuð á Akureyri 19. júní 1986 vegna 100 ára afmælis KEA (Kaupfélags Eyfirðinga). Ragnar fæddist 1923 á Staðastað í Suðursveit. Hann nam myndlist og leirkerasmíði í Reykjavík og Svíþjóð. Það eru til höggmyndir eftir hann víða á landinu. Hann er afi og alnafni listamannsins Ragnars Kjartanssonar sem orðinn er vel þekktur víða um heim. 

 

Ástarbekkurinn
Jóhann Ingimarsson, Nói
Græni hatturinn
1976
Listamaðurinn Nói - Jóhann Ingimarsson var á árum áður einn helsti frumkvöðull íslensks húsgagnaiðnaðar og starfaði við hönnun, framleiðslu og sölu húsgagna nær allan sinn starfsaldur. Hann hefur ávallt verið mjög virkur í listsköpun sinni. Til marks um það má nefna að enginn listamaður, hvorki núlifandi né látinn, státar af því að eiga fleiri útilistaverk vítt og breitt um Akureyri en Nói. Þá hefur hann haldið fjölmargar sýningar á málverkum og þrívíddarverkum. Verkið er í eigu Sigmundar Einarssonar, unnið í járn og lakk. Verkið er sæti fyrir tvo/kærustupar, fyrir utan tónleikastaðinn Græna Hattinn.

Margrét Jónsdóttir
Barnatjörn (Grísatjörn)
Lystigarðurinn á Akureyri
1994
Gjöf frá listakonunni Margréti Jónsdóttur tileinkuð barnapíum á Akureyri. Margrét var bæjarlistamaður 1992-93. Nánari upplýsingar um listakonuna á vef SÍM.

Davíð leggur Golíat
Gatnamót Byggðavegar og Þórunnarstrætis
2008
Minnisvarði um Jón Kristinsson sem sætti sig ekki við að einn og sami maður færi með bæði framkvæmdavald og dómsvald í umferðarlagabroti sem hann var dæmdur fyrir. Jón skaut málinu því til Mannréttindadómstóls Evrópu og þegar íslenska ríkið sá að stefndi í óefni leitaði það sátta við Jón og hét úrbótum. Síðan þá hafa sýslumenn á Íslandi ekki farið með dómsvald eins og tíðkast hafði um aldir en eru áfram yfirmenn lögreglunnar. Jón er eldri maðurinn fyrir miðri mynd og er með sýslumann og dómsmálaráðherra í bak og til hliðar. Frétt um afhjúpun minnisvarðans.

Farið
Pétur Bjarnason
Strandgata
1990

Farið er gjöf Flugleiða til Akureyrarbæjar. Tilefnið var að 3. júní 1987 var liðin hálf öld síðan samfellt atvinnuflug hófst á Íslandi við stofnun Flugfélags Akureyrar, fyrsta íslenska flugfélagsins. Flugleiðir efndu til samkeppni um listaverk. Hugsmíð Péturs Bjarnasonar varð fyrir valinu og hinn 3. júní 1990 var verkið afhjúpað. Pétur fæddist árið 1955 og nam myndlist í Reykjavík, Aachen í Þýskalandi og Antwerpen í Belgíu. Verk eftir Pétur finnast víða á höfuðborgarsvæðinu.

Eflum heilsurækt í Kjarnalundi

Ágúst Jónsson
1987
Verkið var afhjúpað 23. ágúst 1987 en þá voru 50 ár liðin frá stofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Félagið stóð fyrir byggingu Kjarnalundar sem var enn í smíðum sumarið 1987. Akureyrarbær leigði húsið í allmörg ár og rak þar öldrunarheimili en 2004 var það selt. Listamaðurinn, steinasafnarinn og byggingameistarinn, Ágúst Jónsson fæddur 1902 í Skíðadal, gaf verkið en efniviðinn sótti hann vestur á Skaga. Á bakhlið verksins er hlaupari. Ágúst var menntaður húsgagna- og húsasmiður og rak lengi trésmíðaverkstæði bæði í Reykjavík og á Akureyri. Hann var mikill steinasafnari og ánafnaði Háskólanum á Akureyri safn sitt á 95 ára afmælisdegi sínum en Náttúrufræðistofnun í Reykjavík varðveitir nú hluta þessa safns. Árið 1976 var gefin út bókin Óður steinsins en í henni er að finna ljósmyndir Ágústs af íslenskum steinum ásamt ljóðum Kristjáns frá Djúpalæk.

Jóhann Ingimarsson, Nói
Flugsýn
Akureyrarflugvöllur
2001
Nói er fæddur 23. júlí 1926. Hann lærði húsgagnahönnun í Danmörku. Eftir að heim var komið rak Nói Valbjörk hf. sem var fyrirtæki í húsgagnaiðnaði með 70 starfsmenn þegar best lét. Hann stofnaði síðar ásamt eiginkonu sinni Guðrúnu Helgadóttur, Örkina hans Nóa, húsgagnaverslun á Akureyri sem var um langt árabil í fremstu röð húsgagnaverslana.

Auk þess að hanna húsgögn hefur Nói málað og gert þrívíð listaverk sem eru staðsett víða á Akureyri. Þetta listaverk er í eigu Flugfélags Íslands. Hugmyndin að verkinu er flugtakið en hringurinn getur annars vegar táknað vængina og mótorinn sem snýst og hins vegar gufuhvolfið. Verkið er unnið í stál.

Fjórir bautasteinar til minningar um fjögur Landsmót á Akureyri
Á íþróttasvæði Þórs og UFA í Glerárþorpi
2009
Á Landsmóti á Akureyri 2009 afhjúpuðu Helga Guðrún Guðjónsdóttir, fomaður UMFÍ, og Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri Akureyrar, þessa fjóra bautasteina til minningar um þau fjögur Landsmót sem fram hafa farið á Akureyri.

Friðbjörn Steinsson
Ríkharður Jónsson
Friðbjarnarhús, Aðalstræti 46
1953
Friðbjörn stóð fyrir stofnun stúkunnar Ísafoldar sem varð upphaf Góðtemplarareglunnar á Íslandi í Aðalstræti 46. Í Friðbjarnarhúsi má sjá minningarstofu um starf stúkunnar og þar er einnig rekin Leikfangasýning á vegum Guðbjargar Ringsted.

Harpa bænarinnar
Ásmundur Sveinsson
Hamarkotstún
Unnið 1965
Hjónin Marta Sveinsdóttir og útgerðarmaðurinn Guðmundur Jörundsson gáfu bænum listaverkið 1974 þegar minnst var 1100 ára byggðar í landinu. Guðmundur var skyggn og hafði í dularmætti sínum komist í nálægð við „verndarvætt Eyjafjarðarbyggða“ og fyllst svo unaðslegri tilfinningu, þakklæti og hrifningu að æ síðan leitaði hann í listaverki að skyldleika við þessa „stóru og afarfögru veru“ sem birtist honum eitt sinn af brún Vaðlaheiðar og blessaði yfir fjörðinn. Í Hörpu bænarinnar fann Guðmundur loksins fyrir sömu hughrifum og þegar hann sá hina undurfögru veru forðum.
Nánari upplýsingar um listamanninn má finna á heimasíðu Listasafns Reykjavíkur

Heimur vonar
Jóhann Ingimarsson, Nói
Menntaskólinn á Akureyri
2000
Listamaðurinn Nói - Jóhann Ingimarsson var á árum áður einn helsti frumkvöðull íslensks húsgagnaiðnaðar og starfaði við hönnun, framleiðslu og sölu húsgagna nær allan sinn starfsaldur. Hann hefur ávallt verið mjög virkur í listsköpun sinni. Til marks um það má nefna að enginn listamaður, hvorki núlifandi né látinn, státar af því að eiga fleiri útilistaverk vítt og breitt um Akureyri en Nói. Þá hefur hann haldið fjölmargar sýningar á málverkum og þrívíddarverkum. Hér setur Nói saman listaverk úr afgöngum af smíði bobbinga, en bobbingar eru kúlur sem eru notaðar á botnvörpur togara. Verkið er úr stáli og táknar jörðina og gildi menntunar. 

Hringfari
Jóhann Ingimarsson, Nói
Sunnuhlíð
Unnið 1972
Listamaðurinn Nói - Jóhann Ingimarsson var á árum áður einn helsti frumkvöðull íslensks húsgagnaiðnaðar og starfaði við hönnun, framleiðslu og sölu húsgagna nær allan sinn starfsaldur. Hann hefur ávallt verið mjög virkur í listsköpun sinni. Til marks um það má nefna að enginn listamaður, hvorki núlifandi né látinn, státar af því að eiga fleiri útilistaverk vítt og breitt um Akureyri en Nói. Þá hefur hann haldið fjölmargar sýningar á málverkum og þrívíddarverkum. Verkið stóð í um 15 ár við Íþróttaskemmuna á Oddeyri en var þá flutt á núverandi stað. Verkið er elsta útlistaverk Jóhanns á Akureyri.  

Helgi Gíslason
Hvalbeinið
Skólatorg Menntaskólans á Akureyri
2000
Á Skólatorgi við Menntaskólann er afsteypa úr eir af hvalbeininu, afhjúpuð 2000, gerð af Helga Gíslasyni myndhöggvara. Hann fæddist 1947 og nam myndlist í Reykjavík og í Valand listaháskólanum í Gautaborg. Verk eftir Helga eru víða til í opinberri eigu á Íslandi. Hann hefur haldið fjölda sýninga bæði á Íslandi, í Skandinavíu og Þýskalandi. Hann er búsettur og starfandi í Reykjavík þar sem hann hefur fengist við kennslu og setið í ýmsum nefndum og ráðum tengdum myndlist.

 

Íslandsklukkan
Kristinn E. Hrafnsson
Háskólinn á Akureyri
2000
Verkið bar sigur úr býtum í samkeppni sem Akureyrarbær stóð fyrir til að minnast 1000 ára kristni í landinu og landafunda Íslendinga í Vesturheimi. Listamaðurinn er ekki að vísa í bókmenntaverkið Íslandsklukkuna heldur heitir verkið Íslandsklukka. Kristinn talar um að bjöllur hafi komið mjög snemma til Íslands og kveikjan að verkinu tengist því að hluta til en einnig tilvitnun eftir Göthe sem segir að sannleikurinn eigi að líða um loftið eins og bjölluhljómur. Hlutverk háskóla er í raun að leita sannleikans. Kristinn talar líka um það að skapa stað fyrir óorðna atburði. Árið 2000, þegar verkið var sett upp, var Háskólinn á Akureyri einungis 12 ára og átti því stutta sögu að baki og fáar hefðir. Kristinn skapaði með verkinu möguleika á að skapa hefðir, að ná saman sögunni og samtímanum, jafnframt hugsuninni um að við eigum alltaf hlutdeild í sögunni með því að skapa atburði. Kristinn er einn af virtustu og afkastamestu skúlptúristum landsins og verk eftir hann má sjá á fjölda staða jafnt innan dyra sem úti. 2014 vann hann samkeppni um útilistaverk í Grímsey sem fjallar um staðsetningu norðurheimskauts-baugs, sem er breytileg eftir árum. 

Jólakötturinn
Ungmenni í Fjölsmiðjunni undir leiðsögn Aðalheiðar Eysteinsdóttur
2009
Margt er á huldu um hvaðan íslenski jólakötturinn er kominn en honum svipar að mörgu leyti til erlendra dýravætta sem birtast í nágrannalöndum okkar á aðventunni. Hinn norræni jólahafur er ef til vill sú erlenda dýravættur sem íslenski jólakötturinn okkar líkist mest en dýrin eiga það sameiginlegt að fylgjast vel með fólki í undirbúningi jólanna og gera þeim sem ekki fá nýja flík á jólunum grikk. Af þessu er orðatiltækið „að fara í jólaköttinn“ dregið, þ.e. að jólakötturinn éti þá sem ekki fá ný föt á jólunum. Þó hefur reyndar líka komið fram mildari skýring á orðalaginu en hún er sú að jólakötturinn éti matinn frá þeim sem ekki fá nýja spjör um jólin.

Jólakötturinn á Ráðhústorginu var afhjúpaður 28. nóvember 2009 en listaverkið smíðaði ungt fólk úr Fjölsmiðjunni undir leiðsögn Aðalheiðar Eysteinsdóttur og er hann í anda annarra tréskúlptúra hennar.
Kötturinn læðir sér malandi inn á Ráðhústorgið laugardaginn fyrir fyrsta í aðventu og fer ekki fyrir en á þrettándanum þann 6.janúar.

Helgi Gíslason
Jón Rögnvaldsson
Lystigarðurinn
1995
Jón Rögnvaldsson garðyrkjumaður, fæddur í Grjótárgerði í Fnjóskadal 18. júní 1895. Jón lærði til garðyrkju í Kanada en flutti heim og stofnaði Skógræktarfélag Íslands á Akureyri. Nafnið breyttist síðar í Skógræktarfélag Eyfirðinga. Árið 1953 tók hann að sér forsjá Lystigarðsins og gegndi því embætti til 1970, þá hálfáttræður. Styttan af Jóni var afhjúpuð sunnudaginn 18. júní árið 1995 þegar liðin voru 100 ár frá fæðingu hans.

 

Kjarvali II (Fjallamjólk)
Stefán Jónsson
Gatnamót Geislagötu og Gránufélagsgötu
2002
Stefán Jónsson er fæddur á Akureyri 1964 og uppalinn þar. Hann nam myndlist í Reykjavík og New York. Hann er myndhöggvari/skúlptúristi og hefur tölvert unnið útfrá verkum Kjarvals og í þessu verki gerir hann þrívítt verk út frá kunnuglegu stefi úr málverki eftir Kjarval. Þetta verk er unnið í steinsteypu en verkið hefur líka verið unnið í tré og sýnt innanhúss. Stefán er starfandi og búsettur í Hafnafirði og sýnir reglulega afraksturinn af listsköpun sinni í virtum sýningarsölum.

Tove Olafsson
Konur gerðu garðinn
Lystigarðurinn á Akureyri
Lágmynd sem ef til vill var afhjúpuð árið 1942 en fyrir því eru öruggar heimildir að verkið var komið á sinn stað í garðinum ekki síðar en sumarið 1944. Verkið var á sínum tíma gjöf frá velunnara til Lystigarðsfélags Akureyrar. Tove (Thomasen) Ólafsson fæddist 1909 í Kaupmannahöfn. Tengsl hennar við Ísland voru í gegnum eiginmanninn Sigurjón Ólafsson myndhöggvara.

Sjá nánari upplýsingar um listakonuna á eftirfarandi síðu http://www.kvinfo.dk/side/597/bio/883/origin/

Knut Skinnerland
Litli fiskimaðurinn (Fiskermonument)
Við Strandgötu (við Menningarhúsið Hof)
1962
Gjöf frá Álasundi á 100 ára kaupstaðarafmæli Akureyrar, 1962. Verkið er eftirmynd (nú eða frummynd, ef litið er til ártala) af öðru stærra er Álasundsbúar afhjúpuðu þjóðhátíðardaginn 17. maí 1965. Kurt Skinnarland fæddist 1909 í Rauland í Noregi en lést 1993. Hann nam list í heimalandi sínu, auk Danmerkur og í París. Það eru verk til eftir hann víðsvegar um Noreg og hann naut velgengni í heimalandinu.

 

Jónas S. Jakobsson
Margrethe Schiöth
Lystigarðurinn á Akureyri
1951
Verkið var afhjúpað á áttræðisafmæli frú Schiöth, hinn 31. júlí 1951. Margrethe, Friis að föðurnafni, var frá bænum Vejen á Jótlandi en fluttist til Akureyrar árið 1899 og giftist skömmu síðar bakarameistaranum Axel Schiöth. Margrethe er vafalaust fyrsta konan á Akureyri sem lét sér til hugar koma að gróðursetja sumarblóm á bersvæði. Hún var í áratugi forsvarsmaður Lystigarðsins eða þangað til 1. október 1953 þegar hún hætti sem formaður stjórnar Lystigarðsfélagsins og Akureyrarbær tók við garðinum. Árið 1941 var Margrethe gerð að heiðursborgara Akureyrar en hún andaðist 20. júní 1962.


Matthías Jochumsson
Ríkharður Jónsson
Lystigarðurinn á Akureyri
1916

Hinn 11. nóvember 1915 varð Matthías Jochumsson áttræður. Fyrr það ár höfðu nokkrir einstaklingar á Akureyri tekið höndum saman um að reisa honum minnisvarða í „blómagarðinum sunnan við Gagnfræðaskólann“. Svo heppilega vildi til að þetta sumar dvaldi Matthías fyrir sunnan sem gaf Ríkharði Jónssyni myndhöggvara tækifæri til að taka mót af höfði skáldsins sem síðan var sent til Kaupmannahafnar þar sem höfuðið var steypt í eir. Það setti hins vegar strik í reikninginn að skipinu seinkaði er flutti eirlíkneskið til Íslands. Höfuðið komst því ekki á sinn stað fyrr en í maí 1916. Matthías var þá farinn suður í höfuðstaðinn en hafði áður beðið menn að fara sér hægt. Réttast væri að setja höfuðið upp í kyrrþey, var skoðun skáldsins, án nokkurrar viðhafnar. Við þessu var orðið. Höfuð skáldsins stendur enn á sínum stað í Lystigarðinum en um það var ort vorið 1916: „Þegar frumrit frægðarmanns fellur lífs af barði. Eftirrit af höfði hans húkir í Lystigarði.“ Þetta „eftirrit“ af höfði Matthíasar er fyrsti minnisvarðinn hérlendis sem reistur er lifandi Íslendingi til heiðurs.

Ragnhildur Stefánsdóttir
Minningarsteinn með lágmynd af Hermanni Stefánssyni og Þórhildi Steingrímsdóttur.
Menntaskólinn á Akureyri
2006
Gamlir stúdentar og vinir þeirra hjóna gáfu Menntaskólanum verkið.

Páll Guðmundsson
Minningarsteinn um Brynjólf Sveinsson menntaskólakennara
Menntaskólinn á Akureyri
1997
Tákn Menntaskólans, uglan, er höggvið í steininn er stendur norðan við gamla skólahúsið.

Minnisvarði um Hákarla-Jörund - HRÍSEY
Ríkharður Jónsson
1957
Minnisvarðinn er rúmir tveir metrar og stendur fyrir framan Syðsta-Bæjarhúsið. Jörundur var Jónsson og fæddur á jóladag árið 1826 að Ytri-Gunnólfsá á Kleifum í norðanverðum Ólafsfirði. Hann var lengst af ævi sinnar hákarlaformaður og bóndi á Syðstabæ en flutti til Hríseyjar 1862. Jörundur lést 10. október 1888.

Brynhildur Þorgeirsdóttir
Minnisvarðar um framtíðina
Við Drottningartjörn, austan við Nonnahús
1995
Árið 1995 var félögum í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík boðið að taka þátt í Listasumri á Akureyri. Um var að ræða útisýningu þar sem listamaðurinn valdi sér staðsetningu innan vissra marka bæjarins. Listakonunni hefur á ferðum sínum um heiminn fundist áhugavert að skoða hvers konar minnisvarða sem fólk kýs að reisa ástvinum sínum og ættingum og skoðar  hún kirkjugarða á sama hátt og listasöfn. Til að undirstrika að verkið Minnisvarðar um framtíðina hafi ekkert með dauðann að gera gaf listakonan verkinu þetta heiti. Brynhildur fæddist 1955 og er búsett og starfandi í Reykjavík. Hún nam myndlist á Íslandi, í Hollandi og Kaliforníu. Einnig nam hún glerlist í Orrefors í Svíþjóð. Verk eftir Brynhildi eru víða til bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur verið öflug í listsköpun sinni og sýnt víða um heim. List hennar hafa verið gerð greinargóð skil í fjölmiðlum í gegnum tíðina. Vegleg bók hefur verið gefin út um list hennar með fjölda ljósmynda.

Nánari upplýsingar um listakonuna má sjá á heimasíðu hennar http://brynhildur.com/

Starfsmenn Steinsmiðju S. Helgasonar
Minnisvarði um týnda og drukknaða sjómenn
Glerárkirkja
1989
Minnisvarðinn var afhjúpaður 4. júní 1989 en þá var Sjómannadeginum fagnað í fimmtugasta sinn á Akureyri.

Kristinn E. Hrafnsson
Mitt á milli nálægðar og endalausrar fjarlægðar
Fyrir framan fiskvinnslu Samherja við Hjalteyrargötu þar sem áður var Útgerðarfélag Akureyringa
1995

Verkið er gjöf bæjarstjórnar Akureyrar til Útgerðarfélags Akureyringa hf. á hálfrar aldar afmæli félagsins, 26. maí 1995. Verkið á að lýsa upp göngustíg heim að aðalinngangi í byggingu fyrirtækisins. Titill verksins er tekinn úr ljóði eftir Sigfús Daðason. Listamaðurinn segir um verkið að það fjalli um þá staðreynd að við séum alltaf stödd inn í einhverjum tíma eða sögu – jafnvel í miðju sögunnar. Stöplarnir þrír eru tákn fyrir fortíð, framtíð og líðandi stund. Frumformin; hringur, ferhyrningur og þríhyrningur, standa sem táknmyndir fyrir óendanlega möguleika. 

Kristinn fæddist á Ólafsfirði árið 1960 og stundaði myndlistarnám við Myndlistarskólann á Akureyri og Myndlista- og handíðaskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í Akademie der Bildenden Künste í München í Þýskalandi 1986–1990. Kristinn hefur haldið fjölda einka- og samsýninga heima og erlendis og hann á verk í öllum helstu listasöfnum á Íslandi. 

Nánari upplýsingar um listamanninn er á heimasíðu SÍM.

Nína Sæmundsson
Nonni
Nonnahús
1995
Zontaklúbbur Akureyrar hafði veg og vanda af því að koma Nonna aftur heim en upprunaleg gerð styttunnar, sem var raunar týnd um nokkurt árabil, var gerð í gips. Nína Sæmundsson gerði verkið 1958.

Nína (Jónína) Sæmundsson (1892-1965) var myndlistarmaður, sem starfaði lengst af í Bandaríkjunum. Nína nam við hina Konuglegu dönsku listaakademíu í Charlottenborgarhöll undir leiðsögn Julius Schultz og Einars Ultzon-Frank.

Meðal þekktra verka eftir Nínu er verkið Afrekshugur, sem stendur yfir aðalanddyri Waldorf-Astoria hótelsins við Park Avenue í New York. Hún gerði einnig hafmeyjuna sem sprengd var í loft upp á nýársnótt 1960 og stóð í Reykjavíkurtjörn. Önnur afsteypa af hafmeyjunni var seld 2009 fyrir fúlgu fjár í reykvísku listagalleríi. Þekktust er hún fyrir höggmyndir sínar s.s. Móðurást og Sofandi drengur. Síðari ár ævinnar fékkst Nína þó mestmegnis við málverk. 

Nánari upplýsingar um listakonuna á heimasíðu Listasafns Reykjavíkur



Norðrið

Kristinn E. Hrafnsson
Menningarhúsið Hof
2010
Verkið var afhjúpað við vígslu menningarhússins Hofs 28. ágúst 2010, en verkið er frá 2007. Hér veltir listamaðurinn því fyrir sér hvaða merkingu það hafi að vera úr norðrinu – er það mótandi á viðhorf, sjónarhorn og menningu? Er norðrið byrði eða léttur farangur í lífinu – er norðrið menningarástand?  Fólk, staðir og atburðir eru oft skilgreind eftir hnattrænni staðsetningu og í þessu verki svarar hann ekki afdráttarlaust, heldur veltir álitaefninu yfir til áhorfandans að túlka og svara. Þetta er afleitur áttaviti, enda gengur hann ekki upp sem leiðarvísir nema á suðurpóli jarðarinnar. 

Kristinn er fæddur á  Ólafsfirði 1960 og alinn þar upp. Kristinn hélt viðamikla einkasýningu í Listasafninu á Akureyri árið 2012. Sýningin nefndist Misvísun og fjallaði um margvísleg náttúrufyrirbæri eins og Pólstjörnuna, segulsvið jarðar og snúning hennar og sjónarhorn okkar á náttúruna í stærra samhengi. Hann vinnur verk sín í margskonar efni og nýtir vísindarannsóknir. Hann er reyndur sjómaður og nam myndlist á Íslandi og í Þýskalandi. Hann er búsettur og starfandi í Reykjavík og virkur í sýningarhaldi og hefur gert mörg verk í opinber rými.  

Nánari upplýsingar um listamanninn er á heimasíðu SÍM.

Landnemar
Jónas S. Jakobsson
Hamarkotsklappir
1956
Listamaðurinn starfaði á tímabili á Akureyri og gerði þá m.a. styttuna af Helga magra og Þórunni hyrnu sem voru fyrstu landnámsmennirnir í Eyjafirði og draga m.a. göturnar Helgamagrastræti og Þórunnarstræti nöfn sín af þeim auk þess sem heiti leikskólans Hólmasólar vísar til sögu þeirra. Þegar listamaðurinn var 18 ára nam hann tvö ár hjá Ríkharði Jónssyni myndhöggvara í Reykjavík og svo næstu tvö árin þar á eftir hjá Einari Jónssyni myndhöggvara áður, en hann hélt í árs nám til Ríkislistaakademíunnar (Statens Kunstakademi) í Oslo.

Styttan Landnemarnir var fyrst gerð í steinsteypu en það var of viðkvæmt efni og eyðilagðist og var hún því endurgerð í brons. 

Sjá nánari upplýsingar um listamanninn á vef Listasafnsins á Akureyri.

Ásmundur Sveinsson
Óðinshrafninn
Menntaskólinn á Akureyri
1990
Afsteypa af verkinu Óðinshrafninn var gerð vorið 1990 á 110 ára afmæli Menntaskólans. Verkið er frá árinu 1952. Þetta sama verk er einnig að finna í Skallagrímsgarði í Borgarnesi.

Ásgrímur fæddist í Dölunum1893 og ólst þar upp en lést 1982 í Reykjavík. Þangað kom hann 22ja ára til að nema tréskurð og teikningu.  Hann hélt svo til náms í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og París. Hann var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar og vann sín listaverk í tré, málma, stein og gler. Verkum hans var í fyrstu ekki vel tekið en segja mætti að smátt og smátt hafi fólk vanist þeim. 1942 hóf hann byggingu íbúðarhúss og vinnustofu í Laugardalnum í Reykjavík. Húsið er undir sterkum áhrifum af arabískum kúluhúsum og egypskum píramídum. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg verk sín og hús, eftir sinn dag. Þar er í dag Ásmundarsafn sem opnaði formlega 1983. Þar eru sýningar á list hans og annarra. Í garðinum við húsið eru mörg verka hans staðsett. Hann vildi ekki loka höggmyndir inni á söfnum heldur fannst að þær ættu að vera öllum sýnilegar á torgum og strætum. Hann vildi að sem flest verka sinna væru staðsett í opinberu rými. Fjöldi bóka hafa komið út um list Ásgríms.

Nánari upplýsingar um verk listamannins eru á vef Listasafns Reykjavíkur.



Óður til næturinnar

Elísabet Geirmundsdóttir
Aðalstræti 70
1951
Höfundurinn “Listakonan í Fjörunni" - manna í milli oftast nefnd Beta Geirs, hét fullu nafni Elísabet Sigríður. Hún var fædd í Geirshúsi - Aðalstræti 36 - á Akureyri, 16. febrúar 1915, og þar í fjörunni bjó hún og starfaði þá skömmu ævi sem henni var gefin.

Ung giftist hún Ágústi Ásgrímssyni, og saman reistu þau húsið Aðalstræti 70 eftir teikningu hennar. Þar ræktaði hún garðinn sinn flestum öðrum betur og prýddi hann myndverkum sem hún vann í steinsteypu. Hún lést 9. apríl 1959, aðeins 44 ára að aldri.

Þó að Elísabet væri "heimalningur" var hún ótrúlega fjölhæf í listsköpun sinni - virtist geta unnið listaverk úr hverju því efni sem henni barst í hendur - sumum svo forgengilegum sem snjó - öðrum svo eilífum sem orðum er æ geta staðið meðan menn eru máli mælandi.

Kunnust varð hún fyrir myndverk sín, en hún var einnig ágætt skáld og lipur lagasmiður, þótt ólæs væri á nótur. Um Elísabetu og verk hennar er bókin Listakonan í fjörunni, afar falleg bók, og ríkulega myndskreytt, sem Delta Kappa Gamma - Félag kvenna í fræðslustörfum gaf út í minningu hennar 1989 undir ritstjórn Eddu Eiríksdóttur. Þar má líta margan fagran ávöxt þessarar miklu listakonu í máli og mynd.

Páll Briem
Ríkharður Jónsson
Gróðrarstöðin á Akureyri
1947
Páll var bæjarfulltrúi á Akureyri og einn af stofnendum Ræktunarfélags Norðurlands og fyrsti formaður þess. Árið 1904 var Páll kjörinn fyrsti alþingismaður Akureyrar en dó í desember sama ár og náði því aldrei að setjast á þing fyrir bæinn. Áður hafði hann verið alþingismaður Snæfellinga. Brjóstmyndin var afhjúpuð með viðhöfn hinn 5. ágúst 1947.

Perlan
Elísabet Geirmundsdóttir
Aðalstræti 70
1951
Perlan er stærsta styttan í garðinum við Aðalstræti 70 og stendur við tjörn. Perlan er stærsta styttan í garðinum við Aðalstræti 70 og stendur við tjörn. Elísabet byggði hús sitt í Aðalstræti 70 ásamt eiginmanninum Ágústi Ásgrímssyni. Hún gerði teikningu að því og stórum garði umhverfis það með gosbrunni og styttu; Perlunni. Verkið er unnið í steinsteypu. Húsið er enn í dag glæsilegur minnisvarði um þessa merkilegu fjöllistakonu sem lést  9. apríl 1959 aðeins 44 ára. Yfirlitssýning á verkum hennar var í Listasafninu á Akureyri 2015.

Höfundurinn “Listakonan í Fjörunni" - manna í milli oftast nefnd Beta Geirs, hét fullu nafni Elísabet Sigríður. Hún var fædd í Geirshúsi - Aðalstræti 36 - á Akureyri, 16. febrúar 1915, og þar í fjörunni bjó hún og starfaði þá skömmu ævi sem henni var gefin.

Þó að Elísabet væri "heimalningur" var hún ótrúlega fjölhæf í listsköpun sinni - virtist geta unnið listaverk úr hverju því efni sem henni barst í hendur - sumum svo forgengilegum sem snjó - öðrum svo eilífum sem orðum er æ geta staðið meðan menn eru máli mælandi.

Kunnust varð hún fyrir myndverk sín, en hún var einnig ágætt skáld og lipur lagasmiður, þótt ólæs væri á nótur. Um Elísabetu og verk hennar er bókin Listakonan í fjörunni, afar falleg bók, og ríkulega myndskreytt, sem Delta Kappa Gamma - Félag kvenna í fræðslustörfum gaf út í minningu hennar 1989 undir ritstjórn Eddu Eiríksdóttur. Þar má líta margan fagran ávöxt þessarar miklu listakonu í máli og mynd. 

Samstaða á Oddeyri
Jóhann Ingimarsson, Nói
Við Strandgötu
2006
Listamaðurinn Nói - Jóhann Ingimarsson var á árum áður einn helsti frumkvöðull íslensks húsgagnaiðnaðar og starfaði við hönnun, framleiðslu og sölu húsgagna nær allan sinn starfsaldur. Hann hefur ávallt verið mjög virkur í listsköpun sinni. Til marks um það má nefna að enginn listamaður, hvorki núlifandi né látinn, státar af því að eiga fleiri útilistaverk vítt og breitt um Akureyri en Nói. Þá hefur hann haldið fjölmargar sýningar á málverkum og þrívíddarverkum. Verkið var afhjúpað árið 2006 til minningar um að þá var liðin ein öld frá stofnun Verkamannafélags Akureyrar. Verkið er eign verkalýðsfélagsins Einingar Iðju. Að sögn listamannsins fjallar verkið um að menn séu samhentir.

Jón Gunnar Árnason
Sigling
Við Drottningarbraut
1990
Akureyrarbær lét gera verkið í tilefni aldarafmælis Kaupfélags Eyfirðinga (KEA) árið 1986 en það var vígt hinn 3. ágúst 1990 og stóð þá á horni Glerárgötu og Kaupvangsstrætis. Starfsmenn Slippstöðvarinnar á Akureyri settu listaverkið í stál eftir mótum höfundar. Hinn 25. ágúst 2014 var Sigling færð á litla uppfyllingu austan við nýjan göngu- og hjólreiðastíg við Drottningarbraut. Jón Gunnar var menntaður járnsmiður en gerðist svo myndlistarmaður. Hann hafði einstakt lag á að nota málma í verkum sínum og gera þá undirorpna skýrri hugsun myndefnisins. Verk eftir hann hafa verið sýnd hérlendis, í Hollandi og í Þýskalandi. Stórar yfirlitssýningar verið haldnar á Listasöfnum í Reykjavík og á Akureyri og gefin út vegleg bók um list hans. Hans þekktasta verk er Sólfar sem staðsett er við Sæbraut í Reykjavík.

 

Sigurður Sigurðsson
Ríkharður Jónsson
Gróðrarstöðin
Sigurður fæddist að Þúfu í Fnjóskadal 5. ágúst 1871 en flutti ungur með foreldrum sínum að Draflastöðum í sömu sveit og var við þann bæ kenndur. Hann lærði bókband hjá Friðbirni Steinssyni og búfræði í Noregi. Hann stofnaði Trjáræktarstöðina á Akureyri 1899. Sigurður var skólastjóri á Hólum, forseti Búnaðarfélags Íslands og fyrsti formaður Skógræktarfélags Íslands, stofnað 1930. Sigurður andaðist 1. júlí 1940.

Sigurjón Ólafsson
Stefán Stefánsson skólameistari við Menntaskólann á Akureyri.
Menntaskólinn á Akureyri.
1950.

Sigurjón Ólafsson vann andlitið í gifs árið 1933 en búkann ekki fyrr en 1950 en það ár var verkið afhjúpað á stalli sínum, steypt í brons. Nánari upplýsingar um listamanninn eru á heimasíðunni http://lso.is/

Ásmundur Sveinsson
Systurnar
Fyrir neðan andapollinn
1934
Þetta er bronsstytta en sama verk er einnig til í steini, á Ásmundarsafni í Reykjavík. Reykjavíkurborg gaf Akureyri styttuna árið 1962 í tilefni af 100 ára afmæli bæjarins. Ásmundur Sveinsson nam myndlist í Stokkhólmi, við sænsku akademíuna undir handleiðslu myndhöggvarans Carls Milles. Undir lok 3. áratugar síðustu aldar dvaldi hann nokkur ár í París. Ásmundur var trúr þeirri hugsjón sinni að listin ætti erindi til fólksins og best væri að staðsetja hana þar sem best væri að njóta hennar, í opinberu rými. Staðsetning Systranna í grónu umhverfi neðan við Sundlaug Akureyrar hefur í orðsins fyllstu merkingu fært listina til fólksins og í áratugi hafa bæjarbúar jafnt ungir sem aldnir, getað sest niður á bekkinn hjá styttunni og virt hana fyrir sér. 

Ásmundur Sveinsson.
Skólameistarahjónin, Sigurður Guðmundsson og Halldóra Ólafsdóttir
Menntaskólinn á Akureyri
1970
Nánari upplýsingar um verk listamannins eru á vef Listasafns Reykjavíkur. 

Jóhann Ingimarsson, Nói
Tangó
Örkin hans Nóa við Drottningarbraut
Án ártals

Nói er fæddur 23. júlí 1926. Hann lærði húsgagnahönnun í Danmörku. Eftir að heim var komið rak Nói Valbjörk hf. sem var fyrirtæki í húsgagnaiðnaði með 70 starfsmenn þegar best lét. Hann stofnaði síðar ásamt eiginkonu sinni Guðrúnu Helgadóttur, Örkina hans Nóa, húsgagnaverslun á Akureyri sem var um langt árabil í fremstu röð húsgagnaverslana.

Auk þess að hanna húsgögn hefur Nói málað og gert þrívíð listaverk sem eru staðsett víða á Akureyri. Þetta listaverk er í eigu Flugfélags Íslands. Hugmyndin að verkinu er flugtakið en hringurinn getur annars vegar táknað vængina og mótorinn sem snýst og hins vegar gufuhvolfið. Verkið er unnið í stál.

Samkvæmt listamanninum er verkið  gert um 1990. Hann vill hér myndgera snjalla hreyfingu eins og hann segir sjálfur. Þetta verk er í eigu listamannsins sjálfs og er staðsett á lóð húsgagnarverslunarinnar sem ber heitið Örkin hans Nóa, niður við sjóinn.

Steinunn Þórarinsdóttir
Tilvera
Á Skólatorgi við Menntaskólann á Akureyri
2005
Höggmyndin Tilvera eftir Steinunni Þórarinsdóttur er gjöf frá eldri MA-stúdentum til skólans 17. júní 2005. Steinunn Þórarinsdóttir fæddist í Reykjavík 1955 þar sem hún býr og vinnur. Hún nam myndlist í Englandi og á Ítalíu og hefur verið starfandi myndlistarmaður síðan 1980. Hún hefur frá upphafi unnið með manneskjuna og mannlegar aðstæður í margbreytileika sínum. Mannverur Steinunnar hafa fremur lokað og dapurlegt yfirbragð og lýsa fólki í nútíma samfélagi við margvíslegar aðstæður. Hún vinnur stytturnar í raunstærð, bæði í brons og ál. Hún hefur notið mikillar velgengni og eru verk hannar víða til sýnis hérlendis sem og erlendis.

Sjá nánari upplýsingar um listakonuna á heimasíðu listakonunnar www.steinunnth.com/

Útlagar
Einar Jónsson
Eyrarlandsvegur
Verkið er afsteypa úr eir. Það var afhjúpað 15. febrúar 1970 og er gjöf Önnu Jónsdóttur, ekkju Einars Jónssonar, til Akureyrar. Verkið er fyrsta stóra höggmynd Einars og var sýnt á Vorsýningunni í Kaupmannahöfn 1901. Sú sýning markaði upphaf listferils Einars. Hann var fyrsti Íslendingurinn til að gera höggmyndalist að aðalstarfi og einn þeirra myndlistarmanna sem lagði grunninn að nútímamyndlist hér á landi. Einar fæddist 1874 að Galtafelli í Hrunamannahreppi í Árnessýslu og ólst þar upp.1891 fór hann til Reykjavíkur í listnám. Tveimur árum síðar hélt hann til Kaupmannahafnar til að nema höggmyndlist hjá norska myndhöggvaranum Stephan Sinding. Þar lærði hann að höggva í marmara. Hann fékk styrk frá Alþingi til að fara í frekara nám og nam hjá Theobald Stein og Vilhem Bissen í konunglegu listaakademíunni. Hann útskrifaðist þaðan 10 árum seinna, 1896. Hann átti glæstan feril sem myndhöggvari og verk hans er víða að finna. Listasafn Einars Jónssonar er staðsett á Skólavörðuholtinu í Reykjavík.  

 

Vegglistamenn
Gegn veggjakroti, veggjalist á Amaro við Hafnarstræti
2010-2014

Sumarið 2010 fór hópur ungra veggjalistamanna um landið og málaði á veggi. Hópurinn hafði fengið styrk til verksins frá samtökunum, Evrópa unga fólksins. Tilgangurinn var að vinna gegn fordómum og sýna fólki mun veggjalistar og veggjakrots. Á Akureyri málaði hópurinn þetta verk á norðurgafl Amaro í miðbænum. Málað var yfir verkið í júlí 2014. 

Sólveig Baldursdóttir og þátttakendur í norrænni vinabæjarviku á Akureyri
Vinabæjarskúlptúr
Hafnarstræti (göngugatan)
1997
Sólveig Baldursdóttir fæddist 1961 og nam myndlist í Reykjavík, Danmörku og á Ítalíu. Hún bjó um árabil á Akureyri og á þeim tíma vann hún þetta verkefni, með ungu fólki frá vinabæjum Akureyrar sem voru hér saman komin á vinabæjarmóti. Sólveig er búsett og starfandi í Hafnarfirði og verk eftir hana eru víða til. Hún er ein fárra Íslendinga sem vinna í marmara.

Þrívídd
Jóhann Ingimarsson, Nói
Örkin hans Nóa við Drottningarbraut
Án ártals
Listamaðurinn Nói - Jóhann Ingimarsson var á árum áður einn helsti frumkvöðull íslensks húsgagnaiðnaðar og starfaði við hönnun, framleiðslu og sölu húsgagna nær allan sinn starfsaldur. Hann hefur ávallt verið mjög virkur í listsköpun sinni. Til marks um það má nefna að enginn listamaður, hvorki núlifandi né látinn, státar af því að eiga fleiri útilistaverk vítt og breitt um Akureyri en Nói. Þá hefur hann haldið fjölmargar sýningar á málverkum og þrívíddarverkum. Í listaverkinu tengir Nói hér saman mismunandi teninga sem eru hluti af grunnformunum þremur eins og hann segir sjálfur.

Þrumuguðinn Þór
Verkmenntaskólinn á Akureyri
2004
Um 1815 fannst stytta af þrumuguðinum Þór á þeim slóðum þar sem nú stendur Verkmenntaskólinn á Akureyri. Árið 2004 varð Verkmenntaskólinn 20 ára og af því tilefni var eftirmynd Þórs- líkneskisins sett upp við skólann. Á heimasíðu Þjóðminjasafns Íslands kemur fram að Þórslíkneskið svokallaða sé lítið mannslíkan úr bronsi. Ákveðin stíleinkenni benda til þess að líkneskið hafi verið gert nálægt aldamótunum 1000. Það hefur verið talið sýna Þór sem var einn fremsti guð norrænna manna í heiðnum sið. Bronskarlinn heldur báðum höndum um hlut sem talinn hefur verið Þórshamar, en líkist mjög kristnum krossi.

Nánari upplýsingar

Auðhumla og mjaltastúlkan
Ástarbekkurinn
Barnatjörn (Grísatjörn)
Davíð leggur Golíat
Eflum heilsurækt í Kjarnalundi
Farið
Flugsýn
Friðbjörn Steinsson
Fjórir bautasteinar til minningar um fjögur Landsmót á Akureyri
Harpa bænarinnar
Heimur vonar
Hringfari
Hvalbeinið
Íslandsklukkan
Jólakötturinn
Jón Rögnvaldsson
Konur gerðu garðinn
Kjarvali II
Landnemar
Litli fiskimaðurinn
Margrethe Schiöth
Matthías Jochumsson
Minningarsteinn
Minningarsteinn
Minnisvarði um Hákarla-Jörund - HRÍSEY
Minnisvarðar um framtíðina
Minnisvarði
Mitt á milli nálægðar og endalausrar fjarlægðar
Nonni
Norðrið
Óðinnshrafninn
Óður til næturinnar
Páll Briem
Perlan
Samstaða á Oddeyri
Sigling
Sigurður Sigurðsson
Skólameistarahjónin
Tangó
Tilvera
Útlagar
Vegglistamenn
Vinabæjarskúlptúr
Þrívídd
Þrumuguðinn Þór