Til baka

Ævintýri á aðventunni

Ævintýri á aðventunni

Hress og skemmtileg jólasýning!

Gleðilegt jólasöngverk úr smiðju sviðslistahópsins Hnoðra í norðri sem sniðinn er að börnum á 5-10 ára aldri, en ætti að koma öllum aldurshópum í jólaskap.

Jólin eru að koma og systurnar Solla og Gunna eru að springa af spenningi. Það er allt svo skemmtilegt og skrítið: Jólalykt, jólalög, jólagjafir - og ekki má gleyma skónum sem fer út í glugga. Solla er reyndar ekkert glöð þegar hún fær vettlinga í skóinn.

„Ég vil enga mjúka pakka

og neita fyrir þá að þakka.“

Gunna segir henni að það sé best að vara sig á heimtufrekju og auðvitað er það rétt hjá henni, því bæði Grýla og Jólakötturinn eru sammála um að það sé gott að börn séu óþekk.

„Mér líst vissulega vel á þau flest,

en verstu börnin bragðast samt best.“

Þegar systurnar fara í bæjarferð til að kaupa gjafir komast þær í hann krappan þegar þær rekast bæði á jólasvein og sjálfan köttinn. Þá kemur sér vel að kunna allar jólareglur og jólalög sem gilda á aðventunni.

 

Í sýningunni skarast skáldskapur, ópera, söngleikur og gamanleikhús á stórskemmtilegan hátt. Höfundur og tónskáld er Þórunn Guðmundsdóttir, en aðalsmerki hennar eru frábærlega fyndnir og hnittnir textar með orðaleikjum auk þess sem tónlist hennar er mjög aðgengileg og yndisleg áheyrnar.

Leikstjóri verksins er Jenný Lára Arnórsdóttir, sem einnig hannar leikmynd og ljós. Búningar eru úr smiðju Rósu Ásgeirsdóttur. Flytjendur eru Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari og söngkonurnar Björk Níelsdóttir og Erla Dóra Vogler.

Verkið er stutt og laggott, eða um 30 mín að lengd, fyndið og efniviður sóttur í hinn undarlega íslenska jólasöguarf.

 

Sýnt verður í Samkomuhúsinu 9. og 10. desember kl. 11:00 og 13:00 báða daga.

Miðasala á mak.is

 

Fylgist með okkur á samfélagsmiðlum:

https://www.facebook.com/hnodrinordri

https://www.instagram.com/hnodriinordri

Hvenær
sunnudagur, desember 10
Klukkan
13:00-13:30
Hvar
Samkomuhúsið, Hafnarstræti, Akureyri
Verð
2500