Svarfdælasýsl forlag boðar til útgáfuhófs í Kvosinni í MA vegna útgáfu bókar Óskars Þórs Halldórssonar um Akureyrarveikina. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Veturinn 1948-1949 varð alvarlegur veikindafaraldur á Akureyri. Í byrjun var talið að um væri að ræða lömunarveiki en síðar kom í ljós að svo var ekki og enn þann dag í dag hefur ekki verið leitt í ljós hvers konar veiki þetta var. Frá því um mitt ár 1949 hefur faraldurinn ávallt verið kallaður Akureyrarveikin - á ensku Akureyri disease eða Icland disease. Talið er að um eitt þúsund manns á Akureyri hafi veikst. Aftur stakk veikin sér niður 1955-1956 á Vestfjörðum og í Þistilfirði.
Í bókinni er fjallað um Akureyrarveikina, útbreiðslu hennar og afleiðingar, oft með átakanlegum lífsreynslusögum. Margir náðu sér aldrei til fulls. Höfundur ræddi við fjölda fólks og studdist við umfangsmiklar heimildir til að varpa ljósi á mál sem lengi hefur legið í þagnargildi.
Áratugum eftir þennan faraldur beinist athygli vísindafólks aftur að honum því mikil líkindi eru með Akureyrarveikinni, ME-sjúkdómnum og alvarlegum eftirköstum COVID-19.
Við formlega kynningu bókarinnar í Kvosinni í Menntaskólanum á Akureyri 29. ágúst taka til máls auk höfundar Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri, læknarnir Friðbjörn Sigurðsson og Kristín Sigurðardóttir og Kristín Sóley Sigursveinsdóttir á Akureyri.