Til baka

Arctic Open golfmót

Arctic Open golfmót

Arctic Open er alþjóðlegt golfmót og hefur verið haldið frá árinu 1986.

Arctic Open er alþjóðlegt golfmót og hefur verið haldið frá árinu 1986. Mótið fer fram á Golfvelli Akureyrar að Jaðri og stendur í þrjá daga, þar af eru tveir keppnisdagar. Mótið er það eina sinnar tegundar í heiminum, það er að segja spilað yfir hánótt að staðartíma. Golfvöllurinn að Jaðri er einn af nyrstu 18 holu golfvöllum í heimi.

Í upphafi var einungis keppt í einum flokki, þ.e.a.s. með forgjöf en frá árinu 1987 hefur verið keppt í tveimur flokkum, með og án forgjafar, og það ár var atvinnumönnum í fyrsta sinn boðin þátttaka og mótið um leið gert að alþjóðlegu golfmóti. Árið 2002 var bætt við verðlaunum fyrir besta árangur í kvenna- og öldungaflokki án forgjafar. Þetta er 36 holu golf þar sem leikið er eftir Stableford punktakerfi. Sjálfir keppnisdagarnir eru tveir og spilaðar 18 holur hvorn þeirra.

Mótið hefst á fimmtudegi með skráningu keppenda og opnunarhátíð þar sem boðið er upp á hlaðborð með norðlenskum veitingum. Kl. 16 á fimmtudag eru kylfingarnir ræstir út og eru leiknar 18 holur fram á rauða nótt. Á föstudag eru leiknar aðrar 18 holur. Á laugardagskvöld er loks slegið upp veislu í lokahófi þar sem verðlaun eru afhent og boðið upp á skemmtiatriði.

Arctic Open 2022 fer fram 23. - 25. júní. Nánari upplýsingar má sjá á: arcticopen.is.

Hvenær
23. - 25. júní
Hvar
Jaðar, Akureyri