Leikhópurinn Lotta bregður á leik í sumar með glænýjan íslenskan fjölskyldusöngleik um sjálfan Bangsímon og vini hans á MA túninu á Akureyri á Einni með öllu laugardaginn 3.ágúst klukkan 12:00. Að vanda mun hópurinn ferðast með sýninguna um allt land en sýningaplan sumarsins má finna á www.leikhopurinnlotta.is.
Flestir kannast við vinalega bangsann hann Bangsimon, vini hans Gríslinginn, Kaniku, Eyrnaslapa og Ugluna svo þau þarf vart að kynna. Í höndum Lottu hefur þessum sögum verið gefið nýtt líf og lifna persónurnar nú loksins við frammi fyrir augunum á okkur. Eins og Lottu er von að vísa eru 10 glæný íslensk lög í sýningunni, mikið af dönsum og heill hellingur af bröndurum, bæði fyrir börn og fullorðna. Sýningin er klukkutími að lengd og skipta fimm leikarar á milli sín öllum hlutverkum.
Bangsímon er klukkustundarlöng sýning sem er hugsuð fyrir alla aldurshópa og eiga þar fullorðnir jafnt sem börn að geta skemmt sér saman. Þar sem sýningarnar eru utandyra er um að gera að klæða sig eftir veðri, pakka smá nesti og hella vatni í brúsa og halda svo á vit ævintýranna í Ævintýraskóginum.
Miðaverð 3.700 krónur, frítt fyrir 2ja ára og yngri. Bæði er hægt að nálgast miða á staðnum sem og á tix.is. Hlökkum til að sjá ykkur!