GLUGGINN í vinnustofu Brynju í Hafnarstræti 88 er sannkallað jólaævintýri í desember.
Litið er inn á heimili frá fyrri hluta síðustu aldar. Heimilisfólkið er gengið til náða og töfrar jólanna færast hljóðlega yfir bæinn. Stjörnubjartur himinn lýsir upp umhverfið, glansandi rauð epli bíða í skál, nýsteikt laufabrauð og hangikjötsflís hvíla á diski og sofandi kisur á sæng. Búið er að skreyta með litríkum músastigum, kramarhúsum og heimagerðu jólatré.
Glugginn í Hafnarstræti 88 er hugverk systranna Brynju Harðardóttur Tveiten myndlistarkonu og Áslaugar Harðardóttur Tveiten sem rekur skrautmunasöluna Fröken Blómfríður. Glugginn er tilvalinn áfangastaður í göngu- og vettvangsferðum og hefur þann tilgang að lífga upp á umhverfið, hvetja vegfarendur til að staldra við í amstri dagins og skapa gleði, hlýju og nánd. Athugið að sýningarinnar er notið utan frá séð.