Gluggasýningin HJARTATENGING er hugverk Brynju Harðardóttur Tveiten myndlistarkonu og systur hennar Áslaugar Harðardóttur Tveiten sem rekur skrautmunasöluna Fröken Blómfríður. GLUGGINN sýnir rómantíska útilegu þar sem andi fortíðar sveimar yfir. Tilgangur sýningarinnar er að ylja fólki um hjartarætur, vekja kátínu og skapa sögur í hugum þeirra sem njóta. Sýningin er aðgengileg vegfarendum allan sólarhringinn þar sem hennar er notið utan frá séð.
Þau undirbjuggu útileguna sína af nákvæmni og natni. Hún tíndi saman það sem til þurfti og hann pakkaði því haganlega niður. Þögul samvinna þeirra einkenndist af nánd og friðsæld.
Í gróskumikilli laut má heyra lækjarnið og jarm í fjarska. Þvottur hangir á snúru milli tveggja trjágreina og blaktir lítillega. Öðru hvoru lyfta snöggar vindhviður þvottinum upp og hann breiðir úr sér eins og svífandi fuglar í himinhvolfi. Rautt ljós logar inn í svolitlu tjaldi og þaðan berst lágur hlátur og kliður. Þau búa um sig, breiða úr svefnpokum, hagræða koddum og taka fram útilegubúnaðinn sinn.
Ilmur af lyngi og tæru fjallalofti fléttast saman við lykt af kraftmikilli súpu sem mallar yfir eldstæði. Í súpunni eru m.a. nýuppteknar kartöflur, sveppir, skessujurt og silungsbiti. Við hlið eldstæðisins er blómaskreyttur baukur með safaríkum bláberjum sem lofar unaðsstund í eftirrétt.