Til baka

Íslensku vetrarleikarnir

Íslensku vetrarleikarnir

Iceland Winter Games (IWG) er vetrar- og útivistarhátíð sem haldin er á Norðurlandi í fjórða sinn í ár og hefur hún fest sig í sessi, jafnt hjá bæjarbúum sem og vetraríþróttafólki og áhugamönnum um allt land. Árið 2015 sameinuðust tvær stærstu vetrarhátíðir Norðurlands, Éljagangur og IWG undir nafni og merkjum Iceland Winter Games, sem gerir IWG að stærstu vetrarhátíð landsins og er enn í mjög örum vexti.

Iceland Winter Games (IWG) er alþjóðleg vetraríþróttahátíð og verður haldin í Hlíðarfjalli dagana 22.-24. mars 2020. Keppendur koma víðsvegar að úr heiminum, meðal annars frá Kanada, Bandaríkjunum, Noregi, Ungverjalandi, Austurríki og fleiri Evrópu löndum og að sjálfsögðu Íslandi.

Aðalviðburður á leikunum í ár verður keppni á Snjóskautum eða Sled Dogs Snowskates og nefnist Bonefight og er þetta er í fyrsta skipti sem keppt er í þessari íþrótt á Íslandi.

Þess má einnig geta að við Íslendingar eigum einmitt heimsmeistarann í Snowskates íþróttinni og er það Akureyringurinn Ingi Freyr Sveinbjörnsson sem byrjaði  sinn feril á skautunum hér í Hlíðarfjalli. Margir af þeim keppendum sem eru að koma á IWG vegna Sled Dogs eru gríðarlega stór nöfn í skautaheiminum og þá sérstaklega Hokkíinu en Snjóskauta íþróttin er mjög vinsæl meðal hokkíleikmanna.

Einnig verður fjallahjólabrun í bröttustu brekku skíðasvæðisins, vélsleðaspyrna og snjócross á vélsleðum, íslandmeistara mót í snjóblaki sem verður haldið í Hlíðarfjalli og verður jafnframt í fyrsta skipti sem slíkt mót er haldið á Íslandi, Freeride skíða/bretta keppni þar sem keppt er utan troðinna skíðaleiða og verður að þessu sinni haldið í Hlíðarfjalli í fyrsta skipti.

Auk allra viðburða Íslensku vetrarleikanna IWG koma allflestir ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi að IWG og bjóða upp á skipulagðar ferðir á meðan á hátíðinni stendur. Þar má finna ferðir á borð við troðaraferðir á Múlakollu á Tröllaskaga og á Kaldbak, vélsleðaferðir, þyrluskíðaferðir, norðurljósaferðir, skonnortu skíðaferðir um Eyjarfjörð með vistvænum bátum Norðursiglingar og margt fleira.   

Það er Viðburðastofa Norðurlands sem skipuleggur Íslensku vetrarleikana í samvinnu við fjölmarga aðila og styrktarfyrirtæki. Fjölmargir ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi taka þátt í viðburðinum og skipuleggja áhugaverðar ferðir tengdar vetrarútivist og upplýsingar um þær koma fram á síðu hátíðarinnar.

Hvenær
20. - 22. mars
Hvar
Hlíðarfjall
Nánari upplýsingar