James Merry - Nodens, Sulis & Taranis
Sýningaropnun í Listasafninu á Akureyri
Á Akureyrarvöku, laugardaginn 30. ágúst, kl. 15 verður opnuð sýning James Merry, Nodens, Sulis & Taranis, í sal 12 í Listasafninu á Akureyri.
James Merry er breskur myndlistarmaður sem hefur búið og starfað á Íslandi í áratug. Hann er þekktastur fyrir útsaumaðar grímur og sem tíður samstarfsmaður Bjarkar Guðmundsdóttur í sjónrænni framsetningu hennar. Hann hefur unnið með stofnunum og listamönnum eins og V&A safninu í London, Gucci, Royal School of Needlework, Tim Walker, Tilda Swinton og Iris van Herpen.
Á þessari sýningu má sjá þrjár nýjar andlitsgrímur og er hver þeirra innblásin af ákveðnum rómversk-keltneskum fornleifafundi í Bretlandi. Verkin bjóða upp á samtímatúlkun á skarti valdsmanna frá járnöld og gefa innsýn í hversu heillaður Merry er af þessu sögutímabili sem og því svæði sem hann ólst upp á, í suðvesturhluta Englands. Til sýnis verða upprunaleg verk auk mynda og skrásetningar á sköpunarferlinu.