Til baka

Jökulsárgljúfur II

Jökulsárgljúfur II

Neðri hluti gljúfranna, hægt að velja lengri eða styttri gönguleiðir.

Dagsferð frá Akureyri sem hentar öllum aldurshópum - haustlitaferð.

Lagt af stað frá Akureyri kl. 08:00 og haldið austur í Ásbyrgi en á leiðinni er stutt þægindastopp á Húsavík. Við komuna í Gljúfrastofu, sem er gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs í Ásbyrgi, byrjum við á að skoða fræðslusýninguna þar áður en aðal ganga dagsins hefst, 12 km leið frá Ásbyrgi í Hljóðakletta. Þeir sem kjósa styttri dagsgöngu geta valið um nokkra stíga í Ásbyrgi og fara svo með rútunni í Hljóðakletta en þar er einnig hægt að velja um nokkar mismunandi gönguleiðir.

Lagt upp frá Gljúfrastofu, auðveldasta leiðin farin upp á klettabrúnirnar sem umlykja Ásbyrgi. Gengið eftir brúnunum uns komið er að Klöppum ofan við Botnstjörn. Þaðan er stórfenglegt útsýni yfir Ásbyrgi og hrikalegar menjar um hamfarahlaup. Því næst er gengið til suðurs að Rauðhólum en þeir eru afar sérstæðir klæddir svartri og rauðri gjallkápu. Eftir útsýnisstopp liggur leiðin um Hljóðakletta og á bílastæði neðst í Vesturdal þar sem rútan bíður eftir hópnum. Á þessari leið blasa við ótal ævintýraleg jarðfræðifyrirbrigði.

Frá Hljóðaklettum er ekið upp á Langavatnshöfða en þaðan er gott útsýni yfir Jökulsárgljúfur og Öxarfjörð. Þaðan liggur leiðin í Mývatnssveit en þar verður stoppað í tvær klukkustundir. í Mývatnssveit hafa þátttakendur val um að fara í Jarðböðin eða ganga frá Hverfjalli í Dimmuborgir sem er 3-4 km leið. Áætluð koma til Akureyrar er um kl. 20:15.

Ath. þann 9. júlí 2022 er hægt að fara ferðina Jökulsárgljúfur I, sem er um efri hluta gljúfranna. Sú ganga byrjar á bílastæðinu í Hólmatungum og endar í Hljóðaklettum, á sama stað og Jökulsárgljúfur II.

Hvenær
laugardagur, september 3
Klukkan
08:00-20:15
Hvar
Oddeyrarbót 2
Verð
frá kr. 12.700