Áttu erfitt með að brosa? Fer hlátur þér illa? Ertu kannski ekkert fyrir ljóð? Þá er þetta líklega ekki viðburður fyrir þig.
Laugardaginn 15. nóvember kl. 15 flytja kímniskáldin Bragi Valdimar Skúlason, Vilhjálmur B. Bragason og Kristján Níels Jónsson eigin verk. Reyndar er Kristján Níels, Káinn, löngu hættur að koma fram enda á öðru tilverustigi. Ljóð lifa lengur en höfundar og verða flutt valin ljóð eftir Káinn, sem stundum verið nefndur sem fyrsta kímniskáldið.
Þú ert sveitar svívirðing,
sótugi Eldhús-raftur.
Aftan og framan, allt í kring
ekkert nema – kjaftur.
Þessi orð eiga ekki á neinn hátt við hin kímniskáldin Braga og Vilhjálm.
Bragi Valdimar Skúlason hefur samið fjölmarga söngtexta, kvæði og ljóð jafnt til heimilis- og einkanota og fyrir almannarými, ásamt því að þýða og staðfæra ólíklegustu söngleiki, lög og kveðskap úr ýmsum áttum.
Vilhjálmur B. Bragason er leikari, skáld og skemmtikraftur. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir að leika Ketil Skræk í Skugga Sveini hjá LA og hefur einnig gert garðinn frægan sem annar hluti gríndúettsins Vandræðaskálda. Þá hefur Villi samið urmul ljóða og laga, oftar en ekki með kómískum brag, meiningum, nú eða almennum svívirðingum.
En hver var Káinn?
Verið velkomin í stofuna í Davíðshúsi þar sem kerksni, hæðni og háð verða í hávegum höfð .