Hvað ef þú gætir málað allan heiminn, bókstaflega? Skapað það sem þú vilt upplifa í lífinu með pensli? Hvað ef lífið væri einfaldara en hugurinn heldur?
List mín endurspeglar hugsanir mínar, sál mína, tilfinningar og reynslu. Allt sem ég mála kemur frá mínum innsta kjarna, þaðan sem rætur liggja – en hreyfast samt, í leit að merkingu og næringu. Þær finna sér leið, grafa dýpra, brjóta steina – ekkert stöðvar þær, því þær eru blessaðar af heilögum styrk.
Þaðan, úr hinum djúpa sálargreftri, finn ég innblástur minn, sé fyrir mér myndirnar og skapa að lokum listina mína.
Oftast kemur hann innan frá, eins og lífsorkan sem blæðir út úr okkur konum í hverjum mánuði, kraftmikið og næringaríkt gersemi fyrir jörðina sem gefur okkur allt. En stundum kviknar hún frá ytri áhrifum sem ég tengi við og finn samhljóm með.
Ástin er uppspretta innblásturs og styrks, bæði andlega og líkamlega – óendanlegur kraftur sem býr að baki hvers einasta verks sem ég skapa.
Ástin er líka ástæðan fyrir tilveru okkar – og ástæðan fyrir því að þú ert hér í dag. Ástin er lifandi – og lífið er list.
Ágústa er 24 ára norðlensk listakona ættuð innan úr Eyjafjarðarsveit. Hennar helsti tjáningarmáti frá barnæsku hefur verið að mála, syngja og skapa hluti með höndunum hvort sem það er að leira eða skapa gersemar úr gömlum hlutum eða rusli. Hún er stúdent úr MA, menntuð jógakennari í Mexíkó og er við það að ljúka 1 árs diplómanámi við listnámsbraut í VMA. Listin hefur alltaf verið miðpunkturinn en áhuginn við að gera þetta af alvöru kviknaði eftir ársferðalag til Mexíkó og stutt hopp til Guatemala þar sem hún fór í mikla sjálfsskoðun og innri ferðalög sem leiddu hana aftur að kjarnanum. Listinni. Að koma aftur heim og tengjast íslensku rótunum gerði það að verkum að fleiri málverk fæddust eins og greinar á litlu tré sem er búið að vera í potti og fær loksins að vera plantað ofan í jörðina þar sem það mun vaxa og verða stórt og fallegt.
Ágústa Jenný Forberg
Hin Mikla Guðs náð Fyrir framan fjallið
Kaktús, Kaupvangsstræti 8-12
18.april kl. 20-22
19-20.apríl kl. 14-17.00