Til baka

Ljósið kemur

Ljósið kemur

Ragnar Hólm sýnir málverk og vatnslitamyndir.

Laugardaginn 11. desember kl. 14 opnar Ragnar Hólm Ragnarsson málverkasýninguna Ljósið kemur í Deiglunni í Listagilinu á Akureyri. Þetta er 20. einkasýning Ragnars sem einnig hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis.

„Ég hef verið að glíma við olíumálverk í þokkalegri stærð undanfarið og þá finnst mér notalegt að grípa í akrýllitina inn á milli því olían þarf ansi langan tíma á milli umferða,“ segir Ragnar Hólm sem leggur ofuráherslu á olíumálverkin að þessu sinni en sýnir einnig nokkur akrýlmálverk. Í innri sal Deiglunnar verður hins vegar eins konar basar með innrömmuðum vatnslitamyndum frá árunum 2016-2021 sem bjóðast á sérkjörum.

„Það hefur safnast dálítið fyrir af innrömmuðum myndum hjá mér og mér finnst súrt að láta þær gleymast inni í geymslu. Því datt mér í hug að bjóða nokkrar slíkar til sölu á eins konar basar og tjalda af austursalinn fyrir þær. Þetta er svona aukaafurð og kannski ekki eiginlegur hluti af sýningunni sjálfri, dálítið ólíkar akvarellur frá síðustu árum þar sem má vonandi sjá einhverja þróun og vonandi í rétta átt.“

Ragnar Hólm Ragnarsson er fæddur á Akureyri 1962. Síðasta rúma áratuginn hefur hann notið handleiðslu myndlistarmannsins Guðmundar Ármanns og einnig nokkrum sinnum sótt námskeið hjá hinum þekkta sænska vatnslitamálara Björn Bernström, auk þess að hafa tekið þátt í fjölda vinnustofa og sótt námskeið hjá ólíkum málurum á Spáni og Ítalíu. Verk Ragnars hafa verið valin á fjölda samsýninga evrópskra vatnslitamálara. Síðustu árin hefur olíumálverkið orðið æ fyrirferðarmeira í list Ragnars.

Opið er frá kl. 14-17 laugardaginn 11. desember og sunnudaginn 12. desember.

Meira á Facebook: https://www.facebook.com/ragnarholm.art

Heimasíða: www.ragnarholm.com

 

Hvenær
11. - 12. desember
Klukkan
14:00-17:00
Hvar
Deiglan Gilfélagið, Kaupvangsstræti, Akureyri
Verð
Enginn aðgangseyrir