Til baka

Íslenskar Jazz Perlur – Helga Margrét & Vigdís Þóra

Íslenskar Jazz Perlur – Helga Margrét & Vigdís Þóra

Söngkonurnar Helga Margrét Clarke og Vigdís Þóra syngja íslenskan jazz eftir íslenska höfunda.

Söngkonurnar Helga Margrét Clarke og Vigdís Þóra syngja íslenskan jazz eftir íslenska höfunda. Með þeim verður frítt föruneyti tónlistarfólks. Sem dæmi um höfunda má nefna Tómas R. Einarsson, Jón Múla Árnason, Karl Olgeirsson, Marínu Ósk og Sigurð Flosason ásamt þeirra eigið efni.

Vigdís Þóra og Helga Margrét kynntust í tónlistarskóla FÍH og tengdust fyrst og fremst sameiginlegum áhuga á djass tónlist. Einnig höfðu þær keimlíkan bakgrunn, komandi báðar úr klassísku tónlistarnámi. Þær hafa komið reglulega fram á tónleikum meðal annars fyrir troðfullu húsi á Hinsegin dögum 2023 í Iðnó, haldið jólatónleika og sungið í viðburðum á borð við brúðkaup og skírnir. Á þessum tónleikum munu þær syngja margar af sínum uppáhalds perlum íslensks djass ásamt sínu eigin frumsamda efni.

Viðburðurinn er styrktur af VERÐANDI listsjóð sem er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Menningarfélagsins Hofs og Menningafélags Akureyrar.

 

Vigdís Þóra er söngkona og lagahöfundur. Hún spilaði á þverflautu sem barn en hóf svo klassískt söngnám við Söngskóla Reykjavíkur og síðar Söngskóla Sigurðar Demetz. Eftir að hafa klárað 6. stig sagði hún skilið við sönginn og hóf nám við Háskóla Íslands í mannfræði og listfræði.

Eftir nokkurra ára pásu frá tónlistinni fann hún að söngurinn togaði ennþá í hana og hún ætti að reyna aftur við söngnám. Haustið 2020 hóf hún því nám í rytmískum djasssöng við Tónlistarskóla FíH og hefur ekki litið til baka síðan. Þar fann hún djúpstæða tengingu við djass, blús og sálartónlist ásamt því að fara að semja sjálf sína eigin tónlist. Hún bætti einnig við sig mastersnámi í kennslufræðum við Listaháskóla Íslands með áherslu á tónlistarkennslu. Hún útskrifaðist þaðan vorið 2023.

Vigdís Þóra starfar í dag sem tónmenntakennari og tónlistarkona. Hún hefur verið meðlimur Hamrahlíðarkórsins frá 2011 og tekið þátt í fjölda verkefna með kórnum hérlendis og erlendis, meðal annars með Björk í Cornucopiu tónleikaröðinni í New York og í Evrópu. Hún hefur reglulega komið fram á tónleikum bæði innan og utan veggja FíH. Hún stefnir á framhaldspróf í rytmískum söng vorið 2024. Enn fremur stefnir Vigdís Þóra á útgáfu á sinni eigin tónlist ásamt því að koma sér á framfæri sem bæði söngkona og lagahöfundur.

 

Helga Margrét Clarke er fædd og uppalin á Akureyri. Hún ólst upp á miklu tónlistarheimili þar sem báðir foreldrar eru tónlistarmenn. Helga Margrét hóf klassískt píanónám þriggja ára við Tónlistarskólann á Akureyri. Hún lagði tónlistina á hilluna um árabil á meðan hún sinnti háskólanámi. Helga lauk B.Sc. gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri 2007 og tók síðan meistaragráðu í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands 2013.

Það var ekki fyrr en árið 2013 sem hún fór að semja aftur, syngja og spila með systur sinni í hljómsveitinni Sister Sister en þá kviknaði aftur áhugi á söng og lagasmíðum. Haustið 2020 hóf hún rytmískt söngnám við tónlistarskóla FÍH hjá Jóhönnu Linnet og Margréti Eir.

Helga Margrét hefur verið að koma fram sem söngkona bæði með samnemendum og atvinnutónlistarfólki þar sem hún flytur meðal annars sínar eigin lagasmíðar. Helga stefnir á að útskrifast frá FÍH vorið 2024 og hefja feril sem bæði söngkona og lagahöfundur.

Hvenær
fimmtudagur, júní 13
Klukkan
20:00-22:00
Hvar
Hof, Strandgata, Akureyri