Verkin á sýningunni tengjast að formi og litum þannig að hekluð verk sem urðu til fyrst höfðu áhrif á tilurð síðari verka. Eftir hekluðu verki var sniðið form úr striga. Formið sem klippt var úr striganum birtist svo í öðru verki og þannig mætti rekja áfram.
Á sýningunni eru textílverk, olíumálverk og teikningar. Efniviður er ullargarn, móher/silkigarn, hörstrigi, silki, vatnslitapappír, olíulitir, hörband, naglar og rammar smíðaðir úr ösp af Sigurði J. Sigurbjörnssyni.
Guðrún lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2018 og MA nám í myndlist frá sama skóla árið 2020.
Heklað í hring
Til að hekla í hring þarf að auka út með jöfnu millibili sex sinnum í umferð. Ef útaukning er alltaf á sama stað þá myndast sexhyrningur. Komið getur fyrir að aukningin verði rífleg og til að hringur eða sexhyrningur leggist slétt á flöt getur þurft að hekla umferð án þess að auka út. Aðlaga. Lykkju fyrir lykkju byggist formið upp. Með útúrdúrum og afbökun verður það lífrænt. Grundvallarreglur í heiðri hafðar en tilviljanir nýttar til að lita og lífga. Kerfisbundið. Aftur og aftur, endalaust, hring eftir hring.