Til baka

Gamlir og nýir tímar – Sónötur fyrir selló og píanó

Gamlir og nýir tímar – Sónötur fyrir selló og píanó

VERÐANDI

Tónleikarnir eru hluti af Listviðburðaröð VERÐANDI í tilefni af 10+1 árs afmæli Menningarhússins Hofs.

Eden Sekulovic og Þóra Kristín Gunnarsdóttir leika sónötur fyrir selló og píanó eftir Ludwig van Beethoven und Fazil Say.

Þriðja sónata Beethoven fyrir selló og píanó er sú fyrsta þar sem báðum hljóðfærum er gert jafn hátt undir höfði, en áður var píanóið í aðalhlutverki. Þar af leiðandi skapast sérstaklega skemmtilegt samspil og Beethoven tekst meistaralega að útfæra það þannig að þessi ólíku hljóðfæri nái bæði njóta sín sem best án þess að skyggja á hvort annað. Tónlistin er full af gleði og orku, þó auðvitað skiptist á skin og skúrir eins og tónskáldinu einu er lagið.

Tyrkneski píanóleikarinn og tónskáldið Fazil Say er þekktur fyrir persónulegan og opinn stíl sinn. Sónötu hans fyrir selló og píanó, “Fjórar borgir” má líta á sem ferðalag um fjórar tyrkneskar borgir. Þar koma fyrir þjóðlög, popplög, djassáhrif, þjóðdansar og fyllerísslagsmál.

Eden og Þóra kynntust við nám í Zürich og hafa leikið saman sem dúó og í tríói síðustu ár. Eden hefur leikið með sinfóníuhljómsveit Svartfjallalands og Neue Philharmonie München, og auk þess komið fram í virtum tónlistarhúsum svo sem Berlínarfílharmóníunni, Tonhalle í Zürich og Herkulessal í München. Þóra hefur leikið á tónleikum og tónleikahátíðum víða um Sviss og Ísland.

Tónleikarnir eru styrktir af VERÐANDI liststjóði og Menningarsjóði Akureyrar. 

 

 

 

 

Hvenær
fimmtudagur, júlí 1
Klukkan
20:00
Hvar
Menningarhúsið Hof, Strandgata, Akureyri
Verð
3500