Til baka

Úr Tóngarðinum

Úr Tóngarðinum

Verðandi

Úr tóngarðinum er samstarfsverkefni Sigríðar Huldu Arnardóttur söngkonu og Brynjólfs Brynjólfssonar gítarleikara.

Sigríður nam klassískan söng við Tónlistarskóla Eyjafjarðar og Tónlistarskóla Akureyrar þar sem hún lauk framhaldsprófi 2014. Nam einnig klassískan gítarleik og píanóleik á sínum námsferli. Hefur starfað við tónmennta- og tónlistarkennslu undanfarin ár við ýmsa skóla á Eyjafjarðarsvæðinu. Þá hefur hún verið ötull þáttakandi í uppfærslum Freyvangsleikhússins í gegnum tíðina.

Brynjólfur er náttúrufræðingur að mennt og hefur einkum sinnt tónlistargyðjunni með hljómsveit sinni Helga og hljóðfæraleikurunum. Sinnti tónlistarkennslu við Tónlistarskóla Eyjafjarðar í um áratug. Hefur verið nokkuð ötull
þáttakandi í flutningi tónlistar í uppfærslum Freyvangsleikhússins í gegnum tíðina.

ÚR TÓNGARÐINUM er yfirskrift á tónleikum þeirra hjóna á nýútgefnum frumsömdum lögum og kvæðum um eitt og annað er viðkemur lífi í Eyjafjarðarsveit. Lögin og kvæðin eru meira og minna ný af nálinni, samin veturinn 2022-2023. Upptökur fóru fram undir stjórn Hauks Pálmasonar. Verkefnið er sjálfstætt framhald af stuttum sameiginlegum tónlistarferli Sigríðar og Brynjólfs með hljómsveitinni Húsbændur og hjú, sem átti upphaf sitt í sýningu Freyvangsleikhúsins á söngleiknum Þið munið hann Jörund. Tónlistin er fjölbreytt, allt frá völsum yfir í þjóðlagakennd og djassskotin lög. Kvæðin eru mörg hver ort undir viðurkenndum bragarháttum en þó er ekki strangt farið eftir þeim í hvívetna. Sigríði og Brynjólfi til stuðnings munu ýmsir hljóðfæraleikarar úr kunningjahópnum taka þátt í tónlistarflutningum og er þar um auðugan garð að gresja.

Viðburðurinn er styrktur af VERÐANDI listsjóð sem er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Menningarfélagsins Hofs og Menningafélags Akureyrar.

Hvenær
föstudagur, mars 15
Klukkan
20:00-21:00
Hvar
Menningarhúsið Hof, Strandgata, Akureyri