Til baka

Opnun sýninga

Opnun sýninga

Fimm nýjar sýningar í einu flottasta listasafni á Íslandi.

Kl. 15.20: Ávörp í sal 04

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands,
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri,
Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri.

Sýningar:

Samsýning
Hringfarar
26.08.2023-14.01.2024
Salir 02 03 04 05

Listamennirnir sem hér koma saman vinna út frá náttúrulegum ferlum, efniviði og samhengi. Hver og einn hefur sína persónulegu nálgun, en sameiginlega mengið er efniviður úr nærumhverfinu, sem hver og einn vinnur með á sinn persónulega hátt.
Verk Sólveigar Aðalsteinsdóttur endurspegla hugleiðingar um tíma og umhverfi, náttúruna, vöxt og gróður, þar sem mörk innri og ytri veruleika eru ekki endilega ljós.
Elsa Dóróthea Gísladóttir vinnur með hverfulleika, sjálfbærni, ræktun, lífkerfi og alkemíu hvunndagsins. Tíminn er afar mikilvægur þáttur í hennar verkum.
Guðjón Ketilsson vinnur gjarnan með fundna hluti sem geyma minningar og sögur liðinna atburða. Hann skrásetur þá, endurskipuleggur og setur í annað samhengi.
Daglegt umhverfi hefur oft verið kveikjan að verkum Guðrúnar Hrannar Ragnarsdóttur, svo sem rauðrófuhýði í vatni sem hefur myndað rauðan lit og pappírsörk á glugga sem raki hefur teiknað á.


Brynhildur Kristinsdóttir
Að vera vera
26.08.2023-11.08.2024
Salur 06

Verurnar hafa fylgt mér frá því að ég skoðaði Museo della Statue Stele Lunigianesi í Pontremoli á Ítalíu vorið 1990. Frumstæðar höggmyndirnar höfðu mikil áhrif á mig og hafa fylgt mér æ síðan. Í verkum mínum skoða ég þenslu málverksins ásamt því að breyta lögun þess frá flatneskju yfir í þrívítt form. Ég velti fyrir mér hvað er innan og utan myndformsins og tengslum þess við umhverfið, en undanfarin ár hef ég í auknum mæli valið að sýna verk mín utandyra.“
Brynhildur Kristinsdóttir (f. 1965) vinnur með mismunandi miðla sem taka mið af viðfangsefninu hverju sinni. Hún hefur kennt myndlist og átt í samstarfi við ýmsa listamenn, gert leikmyndir og búninga fyrir gjörninga og dans. Brynhildur nam myndlist í Myndlistaskólanum á Akureyri og Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún lauk kennaranámi frá Háskólanum á Akureyri og meistaranámi í listkennslu frá Listaháskóla Íslands 2022. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum.


Kata saumakona
Einfaldlega einlægt
26.08.2023-04.02.2024
Salur 07

Katrín Jósepsdóttir (1914-1994) vann margvísleg störf á lífsleiðinni, en snemma fór hún að sauma og var því oftast kölluð Kata saumakona. Málverk hennar flokkast undir naívisma, sem er einstakur tjáningarmáti og vísar til verka listamanna sem ekki hafa hlotið hefðbundna myndlistarmenntun heldur fylgja eigin tilfinningu og einlægni í sköpun sinni. Stíllinn birtist í sérstakri tækni og óbeislaðri lita- og frásagnargleði, sem brýtur upp ríkjandi reglur og viðmið, en býr jafnframt yfir mikilli fegurð.
Kata saumakona var komin á efri ár þegar hún hóf að gera tilraunir í myndlist. Á sýningunni fá safngestir tækifæri til fræðslu og sköpunar, með því að virða fyrir sér hluta þeirra verka Kötu sem eru í eigu Listasafnsins. Verkin eru einlæg og ástríða hennar hvatning fyrir börn og fullorðna, því allir geta skapað. Útkoman getur komið á óvart.
Verkin á sýningunni eru hluti gjafar sem ættingjar Kötu færðu Listasafninu 1994.
Sýningarstjórar: Guðrún Pálína Guðmundsdóttir og Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.


Dröfn Friðfinnsdóttir
Töfrasproti tréristunnar
26.08.2023-10.03.2024
Salur 09

Dröfn Friðfinnsdóttir (1946-2000) nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1962-1963 og við Dupointskólann í Kaupmannahöfn 1964. Haustið 1982 hóf hún nám við Myndlistaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan frá málaradeild 1986. Hún hélt áfram námi í Finnlandi 1987-1989. Dröfn hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir list sína og 1998 var hún Bæjarlistamaður Akureyrar.
Sýningin Töfrasproti tréristunnar fjallar um afar frjótt tímabil í listsköpun Drafnar, sem hófst í námsferð til Finnlands 1987 og stóð til 1999, þar sem tréristan er hennar aðalviðfangsefni. Dröfn risti myndverk sín í stórar og grófar krossviðarplötur og þrykkti eitt eintak í einu án aðstoðar hefðbundinna grafíkáhalda. Á þennan nána hátt glímdi Dröfn bæði við efnið og andann. Þegar liturinn og tréð létu undan sífelldum strokum listamannsins og gáfu eftir á pappírinn fullbúið verk, er eins og myndin fljóti á milli flatarins og áhorfandans, þar sem æðar og áferð prentplötunnar eru enn til staðar eins og fjarlæg minning.
Sýningarstjóri: Haraldur Ingi Haraldsson.


Melanie Ubaldo
Afar ósmekklegt
26.08.2023-10.03.2024
Salur 12

Hvernig er hægt að minnast hræðilegra gjörða án þess að úr verði sjónarspil? Fyrir lokaverkefnið mitt í MA-náminu spreyjaði ég á glugga í gallerýi í Breiðholti orðin „Farðu til fjandans helvítis útlendingaskíturinn þinn“ og allt ætlaði um koll að keyra.
Þessi einkasýning er innblásin af því bakskoti sem ég varð fyrir við þetta tiltekna textaverk. Athugasemdir frá ókunnugu fólki á netinu hafa síðan orðið að jarðsprengjusvæði haturs, heimsku og kynþáttafordóma, sem nýtist sem efniviður í sýninguna. Ofbeldið sem beint var að mér hefur breyst í opinbera rökræðu um hvernig við sættumst við kynþáttafordóma á Íslandi. Markmið sýningarinnar er að endurheimta það gangverk tungumálsins sem orðræða kynþáttafordóma nýtir sér með því að ráðskast vísvitandi með sýnileika málsins og sigla á milli mismunar þess að sjá, lesa og að lokum – skilja.“
Melanie Ubaldo (f. 1992) lauk MA-námi frá Listaháskóla Íslands 2022. Hún er einn af stofnendum listamannaþríeykisins Lucky 3 og hefur tekið þátt í sýningum á Íslandi og erlendis. Verk hennar má m.a. finna í safneign Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Gerðarsafns og Hafnarborgar.

Nánari upplýsingar:
Dagsetning: 26. ágúst
Tímasetning: kl. 15.00 - 23.00
Staðsetning: Listasafnið á Akureyri
Aðgangseyrir: Enginn aðgangseyrir


Viðburðurinn er hluti af Akureyrarvöku 2023.

 

Hvenær
laugardagur, ágúst 26
Klukkan
15:00-23:00
Hvar
Listasafnið á Akureyri, Kaupvangsstræti, Akureyri
Verð
Enginn aðgangseyrir