Til baka

Raddir barna á Akureyri

Raddir barna á Akureyri

Listasýning barna fyrir börn.

Raddir barna á Akureyri er listasýning barna fyrir börn í Sundlaug Akureyrar í tilefni Barnamenningarhátíðar. 

Þann 27. maí 2020 varð Akureyrarbær fyrsta barnvæna sveitarfélagið á Íslandi sem byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þann 20. nóvember 2019 varð Barnasáttmálinn 30 ára og af því tilefni hélt Akureyrarbær Viku barnsins sem náði hámarki á afmælisdegi Sáttmálans sem í daglegu tali þekkist sem alþjóðlegur dagur réttinda barnsins.

Vikan sjálf fól í sér að röddum barna var gert hátt undir höfði á ýmsa vegu og var skapaður vettvangur fyrir börn til að láta í sér heyra. Hinar fjórar grundvallarforsendur Barnasáttmálans voru hafðar að leiðarljósi við  undirbúning; við höfum það í huga að mismuna ekki börnum sveitarfélagsins, við gerum það sem barninu er fyrir bestu og leitumst við að hámarka lífsgæði og þroska allra barna sveitarfélagsins og munum það að í barnvænu sveitarfélagi eru börn ekki bara sýnileg, það heyrist líka í þeim og því hvetjum við þau til þátttöku (2.gr, 3.gr, 6.gr og 12.gr).

Í Viku barnsins voru send skapalón af loftbelg inn í alla grunnskóla Akureyrar og táknar loftbelgurinn hugmyndir barna og á hann skrifuðu börnin hvað þau vilja í sínu samfélagi. Sum skrifuðu niður hverju þau vilja breyta í sínu nærumhverfi og önnur hvað þau vilja til handa öllum börnum í heiminum. Skilaboðin voru skýr. Börn Akureyrar hafa skoðanir, vita hvað þau vilja og eru tilbúin að við fullorðna fólkið förum að hlusta. Afraksturinn var afar litríkur og fallegur og var afhentur Ásthildi bæjarstjóra þann 20. nóvember, á alþjóðlegum degi réttinda barnsins. Þá minntu börnin svo sannarlega á að þau eiga rétt til virkrar þátttöku og rétt til að tjá sig og hafa áhrif. Við þurfum hins vegar að sýna að við tökum ábyrgð okkar til að skapa tækifæri og vettvang, alvarlega. Afrakstur þessarar vinnu barnanna fékk nafnið: „Raddir barna“ og verður dreginn saman í stutta skýrslu sem ber yfirheitið: „Raddir barna á Akureyri.“

Í Sundlaug Akureyrar verða loftbelgirnir settir upp í glugga í rýminu hjá afgreiðslunni. Þar geta börnin mögulega fundið eigin loftbelg og á sama tíma lesið upplifun annarra barna af samfélaginu.


Takmarka þarf fjölda foreldra og forráðamanna á hverjum viðburði við 20 og virða tveggja metra regluna. Fólk er beðið að virða núgildandi sóttvarnarreglur yfirvalda í hvívetna. Sjá nánar á www.covid.is


Viðburður á Facebook HÉR


Viðburðurinn er haldin í tengslum við Barnamenningarhátíð á Akureyri sem fer fram í október og nýtur stuðnings Akureyrarbæjar.

Hvenær
9. - 30. október
Hvar
Sundlaug Akureyrar, Skólastígur, Akureyri
Nánari upplýsingar

Enginn aðgangseyrir.

Sýningin er opin á opnunartíma sundlaugarinnar.

mán-fös kl. 06:45-21

lau-sun kl. 09:00-19