Til baka

RAFLÍNUR

RAFLÍNUR

Arna G. Valsdóttir og Karl Guðmundsson sýna lifandi málverk.

Komdu inn í lifandi málverk þar sem rafmagnshjólastóll mætir rafrænni myndvörpun.

Gestum er boðið að ganga inn í reynsluheim Karls Guðmundssonar og upplifa myndræna sýn hans og Örnu G. Valsdóttur.

Öll velkomin.

Nánari upplýsingar:
Dagsetning: 17. -18. júní
Tímasetning: kl. 17 - 22 (17), 14-22 (18)
Staðsetning: Deiglan, Listagilið
Aðgangseyrir: Frítt inn

Samstarf listamannanna
Árið 2017 hóf Arna G. Valsdóttir að skrásetja með myndbandstökum listræna samvinnu Karls Guðmundssonar og Rósu Kristínar júlíusdóttur sem eiga langan feril saman í listinni. Þarna varð til nýr þráður í þeirra listræna samstarfi. Tökur þessar leiddu til þess að 17. júní árið 2019 var formlega lagt af stað við gerð heimildamyndar um líf og list Kalla. Leikstjóri myndarinnar sem er í vinnslu er Friðrik Þór Friðriksson og þær Vilborg Einarsdóttir og Hlín Jóhannesdóttir hjá Ursus Parvus eru framleiðendur. Arna G. Valsdóttir er listrænn stjórnandi myndarinnar. Arna sýndi í fyrsta sinn vídeóverk með þeim Karli og Rósu árið 2019 í Mjólkurbúðinni á Akureyri og tók síðan þátt í vinnu við einkasýningu Karls í Listasafninu á Akureyri 2021. Á sýningunni var ennfremur vídeó-málverk eftir Örnu og Kalla, sem byggði á samstarfi hans og Rósu Kristínar.

Um listamennina
Karl Guðmundsson hóf myndlistarnám 6 ára á barna- og síðar unglinganámskeiðum Myndlistaskólans á Akureyri. Hann stundaði þar nám í átta ár undir handleiðslu Rósu Kristínar Júlíusdóttur, myndlistarkennara og listakonu. Karl hélt áfram námi, eftir árin í Myndlistarskólanum, á vinnustofu Rósu Kristínar. Samstarf þeirra var lengi vel samspil nemanda og kennara en þróaðist markvisst yfir í samvinnu tveggja vina, félaga í listinni. Frá árinu 2000 hafa þau haldið margar sameiginlegar listsýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga. Árið 2021 var Karl með einkasýningu í Listasafninu á Akureyri og var Rósa Kristín sýningarstjóri. Karl útskrifaðist frá Verkmenntaskólanum á Akureyri, myndlistasviði, vorið 2007. Meðal kennara hans voru Arna Guðný Valsdóttir og Guðmundur Ármann Sigurjónsson, myndlistarmenn og myndlistarkennarar.

Arna Guðný Valsdóttir lauk myndlistarnámi frá Grafíkdeild MHí 1986 og frá Audio/Videodeild Jan van Eyck Academie í Hollandi 1989. Hún hefur lengst af búið og starfað á Akureyri en sýnt verk sín víða hér á landi og erlendis. Listsköpun Örnu einkennist af innsetningarverkum þar sem hún vinnur með samspil hreyfimyndar/hljóðs/ og arkitektúrs. Í sumum verka sinna nýtir Arna eigin söngrödd og fléttar hana inn í verkin og sýningarrýmið.

Arna hefur kennt myndlist á öllum skólastigum síðustu 30 ár og starfar í dag við myndlistarkennslu við listnámsbraut Verkmenntaskólanum á Akureyri.


Um sýninguna

Arna G. Valsdóttir og Karl Guðmundsson leiða saman hesta sína í samvinnuverkinu RAFLÍNUR í Deiglunni á Akureyri. Þetta er í fyrsta sinn sem Karl tekur þátt í að skapa vídeó innsetningu en hér beita listamennirnir myndbandstækninni til að skyggnast inn í heim hvors annars.

Titill sýningarinnar vísar annarsvegar í rafmagnið sem kvikmynda/vörpunartæknin byggir á, þar sem teiknað er í rýmið með rafljósi, og hinsvegar í rafmagnshljólastól Karls sem nýttur er í verkinu. Í Raflínum ferðast Karl um rýmið á rafmagnshjólastólnum sem hann stýrir alfarið sjálfur með höfðinu en ferðalag hans má skoða sem línur í rýminu. Á móti ferðalagi þessu birtast brot úr fyrsta vídeóverkinu sem Karl og Arna unnu saman ”Hugarró” sem sýnt var á einkasýningu Karls í Listasafninu á Akureyri 2021. Í því verki dansa línurnar sem einkenna málverk Kalla, unnin í áralöngu samstarfi hans við Rósu Kristínu Júlíusdóttur. Línan er ferðalag frá einum punkti til annars, hvort sem hún er máluð eða ”ósýnileg” eins og þegar listamaður ferðast í rafmagnshjólastól frá einum punkti til annars. Dansandi Línur er einmitt heiti á heimildarmyndinni um líf og list Karls.

Grunnurinn í verkinu Raflínur er fyrsta myndband sem Karl tók upp sjálfur. Hann ferðaðist um heimili sitt og endaði á því að mæta sjálfum sér í spegli. Þetta verk hafa þau Arna og Kalli nú tengt við tökur af málverkum Kalla sem hreyfast í myndfletinum og tökur Örnu af Kalla ferðast um.

Raflínur byggir á listrænu samtali Karls og Örnu sem hófst árið 2017. Samtal um hugmyndafræði og myndræna sýn eða hugsun. Um myndbyggingu, liti, form, fjarlægðir, afstöðu, margfeldi, gagnsæi, mynstur, endurtekningu, frádrátt, hreyfingu í myndfleti, orku og útgeislun þar sem listamennirnir reyna að sjá með augum hvors annars. Um tilfinningar og upplifanir og hvernig hægt er að miðla þeim í myndfleti. Um hvernig hægt er að nýta myndbandstæknina til að koma línum Kalla á hreyfingu.

Raflínur er kannski leit eftir því sammannlega og því einstaka. Því sem tengir okkur saman í öllum okkar fjölbreytileika

Karl um Rafmagnshjólastólinn

Í stólnum get ég setið og keyrt. Ég er mun sjálfstæðari þegar ég sit í rafmagnshjólastólnum en í þeim gamla. Ég get t.d. keyrt um sjálfur og stefni á að keyra einn heim til mömmu og pabba. Ég tek mér meira rými í rafmagnshjólastólnum en í þeim gamla. Rafmagnshjólastóllinn gerir mig stærri. Í honum fæ ég nýtt sjónarhorn á fólk og umhverfið. Ég get staðið uppréttur í stólnum sem er mér mikilvægt. Ég er í augnhæð við annað fólk. Það er ekki litið niður til mín. Að standa í stólnum veitir mér hvíld frá löngum setum, styrkir beinin og hefur góð áhrif á ýmsa líkamlega þætti líka.

Hins vegar er erfitt að stýra rafmagnshjólastólum sem ég geri með höfðinu. Æfingarnar hafa tekið mig mjög langan tíma og ennþá þreytist ég fljótt þegar ég stýri stólnum. Ég þarf að æfa mig meira til að verða sjálfstæðari.

Sjálfstæðið útheimtir mikla orku og æfingar.


Viðburðurinn er hluti af Listasumri 2023.

Hvenær
17. - 18. júní
Hvar
Deiglan Gilfélagið, Kaupvangsstræti, Akureyri
Verð
Enginn aðgangseyrir