Til baka

Sjómennska, sviti og salt

Sjómennska, sviti og salt

Gluggainnsetning fyrir alla fjölskylduna í Hafnarstræti 88

Gluggainnsetning júnímánaðar í Hafnarstræti 88, vinnustofu Brynju, nefnist Sjómennska, sviti og salt og er helguð sjómennsku eins og nafnið gefur til kynna. Hún er hugverk systranna Brynju Harðardóttur Tveiten myndlistarkonu og Áslaugar Harðardóttur Tveiten sem rekur skrautmuna- og vintage-söluna Fröken Blómfríður. Efnið er þeim hugleikið en þær eru sjómannsdætur, ólust upp við sjóinn á Árskógssandi þar sem tilveran, líf, leikir og störf snerust að mestu um fiskveiðar og fiskvinnslu. Sýningin hefst á sjómannadaginn og stendur út júní. Um gluggasýningu er að ræða og er því aðgengileg allan sólarhringinn.

„Sjómennskan er ein af undirstöðum samfélagsins. Hún er áhrifavaldur sem rennur í blóði okkar allra og án hennar værum við og samfélagið eitthvað allt annað“ segja þær systur. „Sjómennskan hefur bæði tekið og gefið og gerir enn. Með innsetningunni viljum við fagna sameiginlegum menningararfi okkar og öllum þeim sem stunda sjómennsku í dag og störf henni tengdri. Okkur finnst líka yndislegt að leggja okkar af mörkum við að gæða sjómannadaginn í ár lífi og láta hann bergmála út júní“.

GLUGGINN sýnir samsafn gamalla muna sem koma héðan og þaðan og hafa þjónað tilgangi sínum vel. Sem dæmi má nefna bússur, brýni, snjáða vasahnífa og ljósmyndir. Systurnar taka sér skáldaleyfi og blanda óhikað saman hlutum frá mismunandi tímum og stilla upp í nýtt samhengi. Markmið þeirra er að gera GLUGGANN skemmtilegan, áhugaverðan og vekja upp jákvæðar tilfinningar og hugrenningartengsl. Þær lýsa innsetningunni sem n.k. svipmynd sem vegfarendur og áhorfendur ráða sjálfir hvað varir lengi, allt eftir því hversu hratt er farið hjá.

 

Sýningin er styrkt af Menningarsjóði Akureyrarbæjar.

Hvenær
18. - 30. júní
Klukkan
12:00-18:00
Hvar
Hafnarstræti 88, Akureyri
Verð
Ókeypis