Það stefnir í spennuþrungna stund í stofu Davíðshúss þar sem rithöfundarnir Þórunn Rakel Gylfadóttir og Katrín Jakobsdóttir spjalla við gesti og lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum.
Katrín les úr bók sinni, Franska spítalanum, sem hún skrifar ásamt Ragnari Jónassyni.
Þau taka hér upp þráðinn frá Reykjavík sem varð mest selda bók ársins 2022. Hún hlaut mikið lof gagnrýnenda og var auk þess tilnefnd til Blóðdropans – Íslensku glæpasagnaverðlaunanna. Reykjavík hefur komið út á fjölda tungumála og völdu New York Times og Kirkus Review hana sem eina af bestu glæpasögum ársins 2023 í Bandaríkjunum.
Franski spítalinn gerist í febrúar og mars 1989. Maður finnst látinn í Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði, draugalegu timburhúsi í niðurníðslu. Sunna, blaðamaður á Morgunblaðinu, fer austur til að grennslast fyrir um málið en bæjarbúar vilja lítið við hana tala og brátt fer hún að óttast um öryggi sitt og sinna nánustu.
Þórunni Rakel er höfundur bókarinnar Mzungu ásamt Simon Okoth Aora sem vakið hefur athygli og umtal.
Það er eftirvænting í loftinu þegar Hulda kemur til Kenía þar sem hún ætlar að starfa á heimili fyrir munaðarlaus börn. Íslendingurinn Skúli er í forsvari fyrir heimilið og virðist stýra því af miklum myndarskap og hlýju. Þegar líða tekur á dvölina fer Huldu þó að gruna að ekki sé allt með felldu. Hér er dregin upp af næmni og skarpskyggni æsileg atburðarás bygg á sönnum atburðum um líf og örlög fólks í Kenía.
Fyrsta skáldsaga Þórunnar Rakelar, Akam, ég og Annika, vakti mikla athygli og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka.
Höfundarnir verða með bækur til sölu og árita þær með ánægju.
Dularfulla konfektskálin sem tæmist aldrei verður nálæg.
Hvar: Davíðshús, Bjarkarstíg 6
Hvenær: laugardaginn 22. nóvember kl. 14
Hvað kostar: Ekkert nema tíma.