Til baka

Sköpun bernskunnar 2021

Sköpun bernskunnar 2021

Þetta er í áttunda sinn sem sýning undir yfirskriftinni Sköpun bernskunnar er sett upp í Listasafninu á Akureyri.

Þetta er í áttunda sinn sem sýning undir yfirskriftinni Sköpun bernskunnar er sett upp í Listasafninu á Akureyri. Markmið sýningarinnar er að gera sýnilegt og örva skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára og eru þátttakendur skólabörn og starfandi myndlistarmenn. Unnin eru verk sem falla að þema sýningarinnar, sem að þessu sinni er gróður jarðar.

Myndlistarmennirnir sem þátt taka í ár eru Eggert Pétursson og Guðbjörg Ringsted. Skólarnir sem nú taka þátt eru leikskólinn Iðavöllur og grunnskólarnir Glerárskóli, Síðuskóli og Giljaskóli, sem og Minjasafnið á Akureyri / Leikfangahúsið. 

Leikskólabörnin unnu sín verk í Listasafninu undir handleiðslu Guðbjargar Ringsted og Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur, fræðslufulltrúa og sýningarstjóra. Myndlistarkennarar þeirra grunnskóla sem taka þátt stýra vinnunni í skólunum. 

Í verkum Eggerts Péturssonar (f. 1956) er myndflöturinn þakinn blómum og jurtum úr íslenskri náttúru og fangar hann flóru Íslands á afar persónulegan hátt. Smáar, harðgerðar plönturnar í myndum hans sýna vel sérstöðu þeirra og styrk og eru ákveðnar tegundir honum hugleiknar. Hugað er að hverju smáatriði í verkum Eggerts sem unnin eru af mikilli nákvæmni og vandvirkni. Ljós og skuggar ásamt vandvirkni gagnvart viðfangsefninu framkalla nærveru og nánd við landið, gróðurinn, veður og vinda. 

Eggert stundaði nám við Myndlistaskólann í Reykjavík 1974-1978, Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1976-1979 og Jan van Eyck akademíuna í Hollandi 1979-1981. 

Guðbjörg Ringsted (f. 1957) er þekkt fyrir málverk sem byggja á útsaumsmynstrum af gróðri sem er hefðbundinn hluti íslenska faldbúningsins. Hún færir þjóðleg minni úr handverki kvenna yfir á tvívíðan flöt málverksins, oft af slíkri nákvæmni að áhorfandinn telur sig sjá útsaum en ekki málverk. Verkin eru stílhrein og máluð af mikilli nákvæmni, persónuleg og auðþekkjanleg vegna sérstöðu hennar innan íslenskrar myndlistarflóru. 

Guðbjörg stundaði nám við myndlista- og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist úr grafískdeild skólans 1983. 

 


Verkefnið er hluti af Barnamenningarhátíð.

Hvenær
1. apríl - 2. maí
Klukkan
12:00-17:00
Hvar
Listasafnið á Akureyri / Akureyri Art Museum, Kaupvangsstræti, Akureyri
Verð
Frítt fyrir 18 ára og yngri
Nánari upplýsingar