Söguferð í Víðasel: „Á völtum fótum“
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Erla Sigurðardóttir
Árni Jakobsson skráði sjálfur ævisögu sína „Á völtum fótum“. Í göngunni er rakinn æviferill Árna og um margt sérstakt lífshlaup þessa fatlaða manns við kröpp kjör alþýðufólks og frumstæða búskaparhætti. Gengið er frá suðvesturenda Másvatns í Mývatnssveit um götuslóða að Víðaseli. Síðan að Austurgróf og út með henni að fossi efst í Austurgili. Frá gilinu er gengið yfir Víðafellið og að bílunum. Gangan að Víðaseli er mjög greið, með grófinni og austur yfir Víðafellið er gengið um ótroðnar slóðir, mólendi og mel. Afar víðsýnt er frá Víðaseli og af Víðafelli. Gangan er auðveld og hentar öllum kynslóðum, tilvalin fjölskylduganga. Þeir sem ekki treysta sér í göngu um órutt mólendi geta auðveldlega gengið sömu leið til baka frá Víðaseli að Másvatni.
Vegalengd: 7,5 km Gönguhækkun: 150 m.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.
Greitt er fyrir þessa ferð við brottför.