Til baka

Sólarlög 2020 í Grímsey

Sólarlög 2020 í Grímsey

Nyrstu rafmögnuðu tónleikar Íslandssögunnar.

Athugið að leyfður fjöldi gesta fer eftir sóttvarnarlögum.
Nauðsynlegt er að skrá þátttöku með tölvupósti á heimrikur@gmail.com
Enginn aðgangseyrir.

Nafnið sól-stöður vísar til þess að sólin virðist standa í stað og hvorki hækka né lækka á lofti. Á fáum stöðum er þetta einstaka fyrirbæri eins sýnilegt og í Grímsey. Á sumarsólstöðum í Grímsey hverfur sólin ekki bak við nein fjöll heldur trónir hindrunarlaust yfir höfði uns hún dýfir sér í átt að sjóndeildarhringnum þar sem hún tiplar lipurlega og tekur að rísa á ný.

Þarna á þessum tíma er hægt að upplifa algjört tímaleysi og algjöra upphleðslu af orku náttúrunnar. Nær allir menningarhópar heims hafa haft trúartengdar hátíðir á sumarsólstöðum. Langar okkur að vekja fólk til meðvitundar þessa helgi með frumlegum tónleikum og heilnæmri útiveru. Á sumarsólstöðuhelginni, föstudaginn 19. júní verða því haldnir tónleikar á óbyggðum norðurenda Grímseyjar, Eyjarfæti.

Tónleikarnir hafa þá sérstöðu að vera nyrstu rafmögnuðu tónleikar Íslandssögunnar. Þangað verður flutt hljóðkerfi og lítil rafstöð og þannig knúnar fram sterkar andstæður nútíma tækni og hreinnar óspilltrar náttúru. Þannig vonumst við til að vekja innra með tónleikagestum ákveðna umhverfisvitund og ábyrgðartilfinningu fyrir stöðu okkar allra sem virkra tæknineytenda í nútíma upplýsinga- og tæknisamfélagi.

Fram koma:
Ívan Mendez
Stefán Elí Hauksson
Diana Sus

Ívan Mendez er tónlistarmaður, tónlistarframleiðandi og skapandi mannvera. Hann er blandaður Færeyingur, Kólombíubúi og Íslendingur en alinn upp á Akureyri. Hann er ofureinlægur í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur en markmið hans er að dreifa hljóðbylgjum frá sínum dýpstu hjartarótum. Ívan byrjaði sinn listferil sem hárgreiðslumaður en klippir nú og litar eingöngu lífið sjálft með tónlistarsköpun sinni. Hann stundar nú tónlistarnám í Berlín sem hann fjármagnar með löndunarvinnu í Vestmannaeyjum á sumrin.

www.imendez.com

https://open.spotify.com/artist/6SQxe8YT7KGCHQQss9FwBp?si=CcsXfHw3SH6msnrKJOW6XADiana Sus er tónlistar- og leikkona frá Lettlandi sem rataði fyrir röð tilviljakenndra atburða til Akureyrar þar sem hún býr nú og stundar nám í skapandi tónlist við Tónlistarskólann á Akureyri. Áður en Diana flutti til Íslands varð hún þekkt í heimalandinu og víðar sem söngkona indie popp stúlknasveitarinnar „Sus Dungo“ sem spilaði áhugaverða blöndu af kvikmyndatónlist og rockabilly. Nú eru „Soul, blús, indie og hafmeyjar“ einkennandi þemu í tónlistarsköpun hennar.

https://open.spotify.com/artist/0DRw7tLkuTOzPx578HYAho?si=xuID3bq5Q-2HoMCfYFz4Hg

Stefán Elí Hauksson er fjölhæfur tónlistarmaður og einstakur karakter sem þorir að vera hann sjálfur. Hann spilar áhugaverðan hræring af melódískri popptónlist sem lætur engan ósnortinn. Hann er með meira fylgi á erlendu tónlistarveitunum Youtube og Spotify en margir af þekktari tónlistarmönnum Íslands. Hann er gífurlega duglegur og afkastamikill en tónlistina semur hann bæði og tekur sjálfur upp. Stefán Elí hefur gefið út 3 breiðskífur þrátt fyrir að vera aðeins rúmlega tvítugur.

https://open.spotify.com/artist/1jvUFmkNVLprRtucuorQd3?si=7aoi3OXnRaCal5C7RtAIcg

Umsjónarmaður tónleikanna er Hinrik Hólmfríðarson Ólason sem er alinn upp bæði í Grímsey og á Akureyri. Hægt er að hafa samband við hann á:
Facebook,
í síma 6968990
eða í tölvupóst heimrikur@gmail.com.

Verndari tónleikanna er Sverrir Páll Erlendsson fv. íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri.

Tónleikarnir eru styrktir af Menningarsjóði Akureyrar.


Praktísk atriði:

Nauðsynlegt er að hafa með sér bæði hlý og vindheld föt því Eyjarfóturinn og í raun Grímsey öll eru óvarin fyrir flestum veðrum. Einnig er gott er að hafa með sér heita drykki og eitthvað snarl.

Nauðsynlegt er að panta miða í ferjuna Sæfara á https://www.samskip.is/innanlands/saefari/

Ferjan Sæfari fer á föstudegi 19. júní, stoppar í þrjá tíma og fer aftur til baka seinni partinn. Hún siglir ekki á laugardeginum og því er nauðsynlegt fyrir tónleikagesti að dvelja í eynni frá föstudegi að sunnudegi. Þeir sem leggja á sig þetta ferðalag þurfa ekki að verða fyrir vonbrigðum því sömu helgi verða fleiri tónlistarviðburðir, auk þess sem í boði verður að fara í gönguferðir um eyjuna undir leiðsögn Hinriks Hólmfríðarsonar Ólasonar. Ef veðrið verður okkur hliðhollt þá getur það eitt og sér skapað ógleymanlegar minningar.

Hægt er að gista á tjaldsvæði í Grímsey en nóttin þar kostar 1700 krónur á mann.

Einnig er hægt að gista á einu af þremur gistiheimilum sem rekin eru í Grímsey:

Sveinsstöðum
halla@arctictrip.is

Básum
https://www.gistiheimilidbasar.is/

Gallerí Gullsól
http://www.gullsol.is/

Veitingastaður og lítil verslun eru í Grímsey en gott er að hafa með sér mat fyrir þá sem hafa sérþarfir.

Hvenær
föstudagur, júní 19
Klukkan
19:00-20:30
Hvar
Grímsey
Nánari upplýsingar