Svavar Knútur söngvaskáld hefur fyrir löngu getið sér gott orð fyrir bæði
lagasmíðar sínar, flutning á sígildum íslenskum alþýðulögum og einnig
skemmtilega og húmoríska sviðsframkomu þar sem sögur og vangaveltur um heiminn fá að njóta sín.
Í sumar fer Svavar Knútur í langþráð tónleikaferðalag um Ísland, einn með
gítarinn sinn og spilar á mörgum af sínum uppáhalds stöðum, þar sem notaleg og
innileg stemning verður í fyrirrúmi og áherslan lögð á samfélag og ánægjulegar
samverustundir. Hlátur og gáski haldast í hendur við alvarlegri og dýpri tóna,
því á misjöfnu þrífast börnin best. Svavar Knútur hlakkar mjög til að halda
þetta tónleikaferðalag, því mörg ár eru síðan hann fór einn á tónleikaferð um
Ísland.
Á dagskrá verða lög úr ranni söngvaskáldsins auk þess sem Svavar mun einnig
flytja nokkur af sínum eftirlætis þjóðlögum og sígildum sönglögum, hverra
orðstír er mikilvægt að halda á lofti og halda lifandi í samfélagsminni.