Til baka

Þrjár sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri

Þrjár sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri

Kl. 12.00-22.00 - Komdu í heimsókn í eitt flottasta listasafn landsins.
Laugardaginn 27. ágúst kl. 15 á Akureyrarvöku verða þrjár sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri: Egill Logi Jónasson - Þitt besta er ekki nóg, Steinunn Gunnlaugsdóttir – blóð & heiður og fræðslusýningin Form í flæði II.
 
Blásarakvintettinn Norð-Austan 5 mun stíga á stokk kl. 15.30 og kl. 17.00 hefjast svo þriðju og síðustu tónleikar sumarsins undir heitinu Mysingur í Mjólkurporti Listasafnsins. Að þessu sinni munu Drengurinn fengurinn, Teitur Magnússon og Dr. Gunni koma fram.
 
Fjölskylduleiðsögn um Þitt besta er ekki nóg og blóð & heiður verður sunnudaginn 28. ágúst kl. 11-12.
 
Gáskablandin alvara Steinunnar
Steinunn Gunnlaugsdóttir (f. 1983) útskrifaðist frá myndlistadeild Listaháskóla Íslands vorið 2008 og tók þátt í listnámi í menningarstofnuninni Ashkal Alwan í Beirút í Líbanon veturinn 2013-2014. Af gáskablandinni alvöru tekst hún á við hin fjölmörgu hugmyndafræðilegu og siðferðislegu kerfi sem mannskepnan skapar, fæðist inn í, lifir við og berst gegn. Með því að skoða og berhátta grunnstoðir hins siðmenntaða mannheims verður til efniviður fyrir tilraunir Steinunnar til að ávarpa samtímann.
Verk hennar samanstendur af fjórum fánum sem munu blakta á fánastöngum á svölum Listasafnsins. Fánarnir eru afrakstur tilraunar þar sem þrír þættir voru bræddir saman: íslenski þjóðfáninn, leturgerðin Comic Sans og þeir stafir íslenska stafrófsins sem tákna hljóðin sem fólk gefur frá sér við sársauka: A, Á, Ó, Æ.
Steinunn var tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna sem listamaður ársins 2018. Árið 2021 fékk hún verðlaun úr styrktarsjóði Richard Serra fyrir framlag sitt til skúlptúrlistar.
 
Þitt besta er ekki nóg
„Það er maður, það er ungur maður, það er unglingur, segir Egill Logi Jónasson. „Í stærsta herberginu í minnsta húsinu hangir mynd af ljóni. Ljónið heldur á minna ljóni. Það ljón heldur um halann á sér og myndar endalausa hringrás ráns og dýra. Fyrir utan gluggann blæs vindurinn sérstaklega kröftuglega á veru sem leitar skjóls í hálfbyggðu bakhúsi. Tónlistin tórir, að hluta til.“
Egill Jónasson er einnig þekktur sem Drengurinn fengurinn og býr og starfar á Akureyri. Hann útskrifaðist úr Myndlistaskólanum á Akureyri 2012 og lauk BA í myndlist í Listaháskóla Íslands 2016. Egill vinnur með ýmsa miðla eins og tónlist, málverk, klippimyndir, gjörninga og vídeóverk. Hann er einn af aðstandendum listhópsins Kaktuss.
 
Fræðsla og form
Í safnfræðslurými Listasafnsins eru haldnar ýmis konar listsmiðjur og þar gefst safngestum einnig færi á að doka við og skapa sína eigin list í fallegu og skapandi umhverfi.
Í rýminu eru reglulega settar upp sýningar, bæði með afrakstri úr listsmiðjunum og með verkum úr safneign Listasafnsins. Þau verk, ásamt öðrum sýningum safnsins, geta gestir notað sem innblástur í eigin sköpun, þó að valið sé að sjálfsögðu frjálst. Öll sköpun er góð, en að skapa í listasafni er einstök upplifun. Hægt er að nota listaverkin á veggjunum sem fyrirmynd og blanda saman litum og áhrifum úr ólíkum verkum. Liti, form og línur er hentugt að nota á pappírinn sem er á borðinu fyrir safngestina, jafnvel þó listaverkin kunni að vera gerð úr öðrum efniviði. Innihald verkanna miðast við þema hverrar sýningar.

Viðburðurinn er hluti af Akureyrarvöku.

Hvenær
laugardagur, ágúst 27
Klukkan
12:00-22:00
Hvar
Listasafnið á Akureyri, Kaupvangsstræti, Akureyri
Verð
Enginn aðgangseyrir
Nánari upplýsingar

Nánar um Listasafnið HÉR